Óhugnanlegt myndband sem Daily Mail birti í morgun sýnir hátíðargesti liggja í felum á meðan skothvellir heyrast í bakgrunni.
Ljóst er að langt stríð er fyrir höndum eftir að Hamas-samtökin réðust á Ísrael með flugskeytum og skotárásum vopnaðra uppreisnarmanna um helgina.
Í umfjöllun Daily Mail kemur fram að hátíðargestir hafi verið í góðum gír á hátíðinni og skemmt sér langt fram eftir nóttu þegar loftvarnaflautur, sem áttu að vara við yfirvofandi flugskeytaárásum, byrjuðu að óma um klukkan hálf sjö að morgni laugardags.
Það var eitthvað sem tónleikagestir gátu átt von á en fæstir bjuggust við því að vopnaðir einstaklingar á fjölmörgum ökutækjum myndu mæta og byrja að skjóta á fólk.
Sem fyrr segir hafa að minnsta kosti 260 fundist látnir eftir árásina á hátíðarsvæðið á laugardag og stendur vinna nú yfir við að bera kennsl á líkin. Dæmi eru um að hátíðargestir hafi falið sig í runnum klukkustundum saman þar til þeim varð ljóst að árásarmennirnir væru á bak og burt.
Aðstandendur þeirra sem enn er saknað eftir hátíðina hafa verið hvattir til að koma með persónulega muni þeirra, til dæmis með tannbursta eða hárbursta, til lögreglu til að hægt sé að taka DNA-sýni og bera þau saman við lífsýni úr hinum látnu.
BBC greindi frá því í morgun að skotið hefði verið á sjálfboðaliða sem leita að líkum á Supernova-hátíðarsvæðinu. Yossi Landau, yfirmaður sjálfboðasamtakanna Zaka, segir að 25 fulltrúar samtakanna hafi verið á svæðinu og þeir fundist 162 lík. Þeir kæmust ekki lengra vegna skotárása frá uppreisnarmönnum sem eru í grenndinni.
Að minnsta kosti 700 Ísraelsmenn eru látnir eftir árásir Hamas-liða um helgina og þá eru að minnsta kosti 400 Palestínumenn látnir í gagnárásum ísraelska hersins.
„Þetta er okkar 11. september. Þeir náðu okkur,“ sagði Nir Dinar, háttsettur fulltrúi í ísraelska hernum, við BBC í morgun. Jonathan Conricus, annar hátt settur fulltrúi hersins, segir að um sé að ræða einhvern versta dag í sögu Ísraelsríkis.