Margir töldu að geislavirknina mætti rekja til Chernobyl en þar varð mikið kjarnorkuslys 1986 þegar kjarnakljúfur sprakk og geislavirkni barst víða um Evrópu.
Live Science segir að nú sé komið í ljós að það sé geislavirkni frá kjarnorkuvopnum, sem voru sprengd fyrir rúmlega 60 árum, sem gerir að verkum að villisvínin eru geislavirk. Er talið að geislavirknin hafi borist í svínin í gegnum uppáhaldsfæðu þeirra, sveppi.
Geislavirkni frá Chernobyl barst til Bæjaralands í kjölfar slyssins í apríl 1986. Sum geislavirk efni geta verið til staðar í náttúrunni í mjög langan tíma. Má þar nefna að Cesium-137, sem er notað í kjarnakljúfum eins og í Chernobyl, þarf um 30 ár til að helmingast í náttúrunni. Cesium-135, sem tengist sprengingum með kjarnorkuvopnum, þarf mun lengri tíma til að helmingast eða 2,3 milljónir ára.
Villisvín í Bæjaralandi hafa verið töluvert geislavirk síðan slysið varð í Chernobyl og það þrátt fyrir að geislavirkni í öðrum skógardýrum hafi minnkað. Þar sem Cesium-137 helmingast á 30 árum mátti reikna með að geislavirknin í svínunum myndi minnka með árunum en það gerðist ekki. Þetta þótti undarlegt því talið var að það væri geislavirkni frá Chernobyl sem bærist í dýrin.
En samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem hefur verið birt í vísindaritinu Environmental Science and Technology, er það geislavirkni frá kjarnorkuvopnasprengingum á tíma kalda stríðsins sem veldur því að svínin eru geislavirk.