Slæmar tölur um gang efnahagslífsins hafa dunið á Kínverjum síðustu marga mánuði í röð og margir hafa sífellt meiri áhyggjur af stöðu efnahagsmála í landinu.
Hátt atvinnuleysishlutfall fólks á aldrinum 16 til 24 ára er mikið áhyggjuefni fyrir kínverska stjórnmálamenn en í júní var atvinnuleysið í þessum aldurshópi 21,3% samkvæmt opinberum tölum en kínverskur almenningur segir varlegt að treysta þeim og að hlutfallið sé mun hærra, jafnvel allt að 40%.
En mitt í þessu mikla atvinnuleysi hefur salan á lottómiðum aukist mánuð eftir mánuð. Í ágúst var sölumet slegið en þá var salan 53,6% meiri en í ágúst 2022. Seldust lottómiðar fyrir sem svarar til um 1.000 milljarða íslenskra króna. Kínverska Xinhua fréttastofan skýrði nýlega frá þessu.
Á fyrstu átta mánuðum ársins seldust lottómiðar fyrir sem svarar til um 7.500 milljarða íslenskra króna og var það 51,6% aukning frá sama tíma 2022.
Margir Kínverjar telja samhengi á milli atvinnuleysis ungs fólks, síhækkandi húsnæðiskostnaðar, efnahagslegrar niðursveiflu og aukningar á sölu lottómiða.
„Ungt fólk vill frekar vinna 5 milljónir í lottói en þéna 5 milljónir með að vinna,“ skrifaði einn notandi á kínverska bloggvefnum Weibo.