Ekstra Bladet segir að aðfaranótt 27. september hafi heimskautaúlfur sloppið út úr úlfagirðingunni í dýragarðinum. Þegar upp var staðið lá 31 flamingófugl í valnum, tveir hvítir storkar og ein trana.
Jesper Stagegaard, forstjóri dýragarðsins, sagði í samtali við Ekstra Bladet að veiðieðli úlfsins hafi rekið hann áfram. Hann hafi ekki verið hungraður, bara hreint veiðieðli hafi tekið stjórnina.
Úlfurinn slapp ekki heill frá þessu því hann var skotinn. Stagegaard sagði að engin áhætta hafi verið tekinn og því hafi hann verið skotinn. Hætta hafi verið á að hann myndi uppgötva önnur dýr í garðinum og leggja til atlögu við þau. Til dæmis apasvæði þar sem aparnir ganga lausir.
Úlfurinn slapp út með því að grafa sig „brjálæðislega“ djúpt niður og undir girðinguna að sögn Stagegaard. Girðingin uppfyllir allar þær kröfur sem eru gerðar til slíkrar girðingar í kringum úlfa en rætur frá tré einu gerðu að verkum að úlfurinn átti ekki í miklum vandræðum með að grafa sig undir hana.
Nú þarf dýragarðurinn að byggja flamingóstofninn upp á nýjan leik en margra ára vinna lá að baki uppbyggingu hans.