Sumarið 2015 lét hin 18 ára gamla Tiffany Valiente lífið nærri heimili sínu er hún varð fyrir lest. Lögregla sá enga ástæðu til að hefja rannsókn á málinu, hér væri um sjálfsvíg að ræða og þó það væri alltaf hræðilegur harmleikur þá hefði ekkert saknæmt átt sér stað. Skömmu síðar fóru þó ógnvekjandi sögusagnir að ganga í nágrenninu og fjölskylda Tiffany taldi ljóst að lögreglan hefði rangt fyrir sér.
En hver voru örlög ungu stúlkunnar?
Tiffany hafði gengið í gegnum erfiða tíma skömmu áður en hún lést. Hún átti í deilum við móður sína sem gengu svo langt að barnavernd hafði í þrígang þurft að hafa afskipti af fjölskyldunni á einu ári. Móðir Tiffany, Dianne, gekkst við því að hafa slegið til dóttur sinnar á meðan þær rifust og mæðgurnar samþykktu báðar að mæta til sálfræðings.
Tiffany greindi sálfræðingi sínum frá því að hún væri hvorki þunglynd né hugsaði um sjálfskaða. Niðurstaða sálfræðingsins var að þó svo að rifrildin hefðu verið hatrömm þá væru heimilisaðstæður almennt stöðugar.
En utan heimilisins var ekki sama jafnvægið. Tiffany missti afa sinn og átti erfitt með að vinna úr sorginni. Hún fór að reykja gras, stela peningum og skrópa í skólanum. Snemma árið 2015 kom hún út úr skápnum og byrjaði að slá sér upp með öðrum konum. Á sama tíma sagði hún vinum sínum að hún væri einmana og að hún stundaði sjálfskaða.
Tiffany virtist þó eiga framtíðina fyrir sér. Hún hafði fengið styrk til háskólanáms fyrir afreksframmistöðu í blaki og stefndi á háskóla í New York. Hana dreymdi um starf í réttarvörslukerfinu eða jafnvel í flughernum. Hún var við það að hefja háskólagöngu sína þegar hún lést með hrottalegum hætti.
Þar sem lögreglan afskrifaði andlátið sem sjálfsvíg var vettvangsrannsókn á lestarteinunum af skornum skammti. Enginn veit því fyrir víst hvað átti sér stað á þessu örlagaríka kvöldi þann 12. júlí árið 2015. Þó hafa nokkrar staðreyndir litið dagsins ljós.
Þennan dag fór Tiffany í útskrift með foreldrum sínum. Eftir að foreldrar hennar voru komnir aftur heim, klukkan um það bil níu, kom vinur hennar kom að máli við þau og sagði þeim að dóttir þeirra hefði stolið af honum. Tiffany hafi tekið kortið hans og notað í leyfisleysi. Samtalið var ekki langt, eða í tæpar 10 mínútur. Tiffany neitaði sök og eftir að vinurinn var farinn ákvað Dianne að rannsaka herbergi dóttur sinnar og bíl til að sjá hvort eitthvað renndi stoðum undir þær sakir sem á dóttur hennar voru bornar. Inn í herbergi Tiffany fann hún kvittun sem sýndi að hún hafði notað kortið og þegar hún leitaði í bíl Tiffany sá hún dóttur sínastinga umræddu korti í vasann.
Dianne sá að tími væri kominn til að foreldrarnir ættu alvarlegar samræður við dóttur sína. Hún fór inn til að sækja eiginmann sinn, en þegar hún kom aftur út – var Tiffany horfin.
„Hún var við bílinn. Ég fór inn að sækja manninn minn. Ég var bara farin í eina mínútu. Ég kom aftur út og þá var hún farin.“
Enginn veit fyrir víst hvað átti sér stað eftir að Tiffany fór frá heimili sínu þar til hún fannst látin. Foreldrar hennar töldu fyrst að hún hefði forðað sér undan fyrirséðu tiltali og ákváðu að bíða eftir að hún sæi að sér. Þegar Tiffany sneri ekki heim aftur ákváðu þau að hefja leit og fundu þá farsíma dóttur sinnar yfirgefinn á heimreiðinni.
„Tiffany fór ekki út úr húsi án þess að hafa símann með sér,“ sagði Dianne í viðtali og útskýrði að síminn hafi verið límdur við dóttur hennar. Hún hafði jafnvel látið vatnsverja hann svo hún gæti tekið hann með sér í sturtu.
Rétt fyrir miðnætti voru foreldrar Tiffany orðin virkilega hrædd um hana og hringdu í lögregluna. En það reyndist vera um seinan. Tæpum hálftíma fyrr hafði dóttir þeirra lent undir lest í um 6,5 kílómetra fjarlægð frá heimili fjölskyldunnar. Lestin var á svo miklum hraða að allir limir rifnuðu af líkama hennar.
„Þegar þeir komu til að segja okkur fréttirnar bað ég þá um að endurtaka sig því ég var í áfalli. Þeir sögðu að hún hefði orðið fyrir lest. Þeir sögðu ekkert annað. Við héldum að hún hefði verið í bíl með einhverjum og bíllinn orðið fyrir lest. Það var það sem við héldum fyrst. Við hugsuðum – Guð minn góður, hver var með henni í bílnum?“
Morguninn eftir hafði lögreglan þegar lokið rannsókn. Tiffany hefði kastað sér fyrir lest og látið lífið sjálfviljug. Ekkert dularfullt, ekkert saknæmt.
En síðan áttu vísbendingar eftir að koma í ljós sem bentu til þess að þetta hafi ekki verið öll sagan.
Nokkur atriði við andlát Tiffany virtust afbrigðileg strax frá upphafi. Hún fannst berfætt og í nærfötunum einum læða. Foreldrar hennar höfðu þó til að byrja með lagt trú á niðurstöðu lögreglu og samþykkt að láta brenna líkamsleifar dóttur sinnar.
„Versta ákvörðun sem ég hef tekið í lífi mínu,“ sagði Dianne í viðtali. Hún hafi gert ráð fyrir að lögreglan vissi hvað hún væri að gera og treyst þeim í blindni. Það var ekki fyrr en tveimur vikum síðar sem hún fór að efast. Þá hafði Dianne ráfað um skóginn sem stendur nærri heimili fjölskyldunnar. Þar rakst hún á skó dóttur sinnar og hárband sem hafði verið komið fyrir með snyrtilegum hætti. Þetta þótti henni undarlegt. Ekkert í krufningu hafði bent til þess að hún hefði labbað 6 kílómetra í engum skóm.
„Fætur Tiffany voru eins hreinir og fætur barnabarn míns,“ sagði lögmaður fjölskyldunnar. „Það voru engar rispur, engir áverkar – ekkert“
Annað undarlegt hafði líka átt sér stað. Þau fátæklegu sönnunargögn sem lögreglan hafði haft fyrir að taka af vettvangi andlátsins höfðu ekki verið geymd með fullnægjandi hætti og spillst. Þar með talið skyrta Tiffany, og exi sem hafði fundist á svæðinu með „rauðum slettum“. Ekki nóg með það heldur átti þessi exi síðar eftir að gufa upp með öllu.
Lestarstjórinn sem ók lestinni þetta kvöld, Marvin Olivares, var einnig grunsamlegur. Framburður hans hafði ítrekað tekið breytingum. Fyrst sagði hann að Tiffany hefði komið sem þruma úr heiðskíru lofti fyrir lestina. Síðar sagðist hann ekki hafa séð Tiffany fyrr en það var orðið of seint, og enn síðar sagði hann að Tiffany hefði verið að krjúpa á lestarteinunum.
Lögmaður fjölskyldunnar taldi ljóst að lestarstjórinn hafði verið beittur þrýstingi af vinnuveitanda sínum til að styðja við sjálfsvígskenninguna svo að eigendum lestarinnar yrði ekki kennt um andlátið.
Þá höfðu undarlegar sögusagnir farið að ganga um nágrennið um örlög Tiffany. Veitingamaður sagði rannsakendum að hann hafi heyrt það frá ungmennum sem störfuðu fyrir hann að Tiffany hefði verið rænt, hún hafi verið neydd til að afklæðast og svo hefði ræninginn elt hana. Þannig hafi hún endað á lestarteinunum. Sú saga gekk að vinur Tiffany sem hafði sakað hana um þjófnað hefði komið við sögu.
Lögmaður fjölskyldunnar krafðist þess árið 2017 að lögreglan hæfi rannsókn að nýju.
„Þó svo að okkur sterklega gruni að Tiffany hafi verið myrt þá rúmast sá möguleiki innan stefnu okkar að samverkamenn hafi ekki ætlað að bana henni, en að heiftarleg framganga hennar hafi leitt til dauða. Hvort sem reynist þá bera þeir ábyrgð á að hún var stödd á lestarteinunum og þeir þurfa og munu vera látnir svara fyrir þessa óafsakanlegu háttsemi.“
Samkvæmt opinberum gögnum er dánarorsök Tiffany enn sjálfsvíg, en fjölskylda hennar og fjöldi stuðningsmanna hafa neitað að láta kyrrt liggja. Það sé ekki mögulegt að Tiffany hafi hent frá sér símanum, gengið stuttan spöl inní nálægan skóg og þar farið úr skóm og tekið af sér hárbandið – því næst hafi hún gengið sex kílómetra berfætt og kastað sér fyrir lest.
Þar fyrir utan var Tiffany gífurlega myrkfælin og telja foreldrar hennar ómögulegt að hún hafi farið inn í skóginn í myrkrinu.
Til að hreyfa við málinu deildi fjölskyldan grun sínum með þáttagerðarfólki Netflix og er mál Tiffany tekið fyrir í þáttaröðinni Unsolved Mysteries. Fjölskylda hennar vonar að þannig sé hægt að ýta við yfirvöldum til að taka málið aftur upp og komast að því hvað kom raunverulega fyrir dóttur þeirra.
Í þáttunum er rætt við sérfræðing sem segir margt furðulegt við formlegu skýrslu réttarmeinafræðingsins í málinu. Þar segi að Tiffany hafi verið aflimuð en orðað með slíkum hætti að það gefi heldur til kynna að það hafi verið vilja verk með eggvopni fremur en afleiðing af árekstri við lest. Á ljósmyndum af vettvangi sjáist mikið blóð sem bendi til þess að Tiffany hafi legið særð eða látin á lestarteinunum áður en hún varð undir lestinni. Þetta blóð hafi lögreglan þó aldrei rannsakað.
Þátturinn um málið vakti mikla athygli og saksóknari á svæðinu sagðist hafa áhuga á að hefja rannsókn, en bara ef nýjar upplýsingar koma fram. Því hafa foreldrar Tiffany boðið vegleg fundarlaun fyrir hvern þann sem getur veitt upplýsingar um hvað kom fyrir Tiffany þann 12. júlí árið 2015.