Margaret Frances Elizabeth Sweeney var í hættu stödd, eða svo sagði vinkona hennar við lögreglu fyrir helgi. Málið kom upp í Norður Karólínu í Bandaríkjunum og tilkynnti þessi vinkona lögreglu að Margaret væri horfin og væri líklega nú þegar dáin eða við það að verða myrt.
Eðlilega tók lögregla málinu alvarlega. Lýst var eftir Margaret og fjölmennt lið lögreglu sent út til að reyna að hafa uppi á henni, vonandi áður en hið versta ætti sér stað.
Það brá því mörgum í brún þegar Margaret fannst í næsta bæ og reyndist aldrei hafa verið í neinni hættu, eða horfin. Það sem meira var þá hafði Margaret sjálf tilkynnt vinum sínum, nafnlaust, um hvarf sitt sem og félagsþjónustunni.
Engum var skemmt yfir þessu uppátæki en lögreglan sagði að þarna hafi dýrmætum tíma og fjármagni lögreglu verið sóað, og þar að auki hafi Margaret valdið vinum og aðstandendum óþarfa áhyggjum.
Margaret hefur nú verið kærð fyrir að leggja fram falska tilkynningu til lögreglu, fyrir að hafa logið því að manneskja væri í hættu stödd og fyrir að hindra framgang réttvísinnar.
Samkvæmt New York Post er óljóst hvers vegna Margaret tók upp á þessu, en hún hefur hjólað í lögregluna undir færslu þeirra á Facebook um málið, þar sem hún sagði hennar sögu vera á hennar forræði og það væri undir henni komið að opinbera ástæður sínar þegar og ef hún verður til þess reiðubúin.
„Samfélagsmiðlar hafa látið okkur halda að við höfum rétt á að vita allt um aðstæður fólks sem koma okkur ekkert við. Í staðinn fyrir að styðja þá hæðum við þá sem svara ekki spurningum sem þeim þykja óþægilegar. Ég ákveð hvenær/hvað og með hverjum ég treysti fyrir þessum upplýsingum og það mun ég ekki gera á næstunni.“