Íranskur fasteignasali er í djúpum vanda eftir að hafa selt hundi íbúð en í kjölfarið var hann handtekinn af lögregluyfirvöldum og á yfir höfði sér refsingu. Fjallað er um málið á vef News.com.
Athygli yfirvalda á málinu kviknaði þegar myndskeið af viðskiptagjörningnum fór á flug á samfélagsmiðlum, Þar mátti sjá eigendur hundsins, sem heitir Chester, undirrita samning þar sem þau afsala sér íbúðinni til hundsins. Hinn ferfætti fasteignamógúll fær síðan aðstoð eigenda sinn til að dýfa loppunni ofan í blek og „undirrita“ síðan afsalið. Fylgdi með sögunni að parið ætti engin börn og hafi viljað ánafna hundinum þessari stærstu eign þeirra.
Haft er eftir Reza Tabar, saksóknara, að umræddur gjörningur eigi sér enga stoð í lögum en öllu verra sé að hann grafi undan siðferði í landinu og á þeim grundvelli var fasteignasalinn, sem ekki var nafngreindur, handtekinn og má búast við ákæru.
Þrátt fyrir að gæludýraeign, sérstaklega á köttum og hundum, færist í vöxt í Íran þá eru hundar samt álitnir óhreinir og hafa íhaldssamir klerkar barist gegn því að þeir séu haldnir sem gæludýr.