Anne Jordan, 51 árs dagmóðir, sem rak ólöglega barnagæslu á heimili sínu í Nashville í Bandaríkjunum er í haldi lögreglunnar, ákærð vegna sex brota um vanrækslu gegn börnum, eftir að hafa yfirgefið sjö börn í hennar umsjá, það elsta 16 mánaða gamalt.
Eitt barnanna var þá látið, þriggja mánaða gamalt barn, sem var sinn fyrsta dag í vistun hjá Jordan. Foreldrar barnsins höfðu valið dagvistun hjá Jordan sem tímabundið úrræði meðan þau biðu eftir að fá pláss fyrir barnið í löglegri dagvistun.
Í frétt CBC segir að dánarorsök barnsins hefur ekki enn verið gefin upp og er beðið niðurstöðu krufningar. Segir Jordan að hún hafi komið að barninu meðvitundarlausu og reynt endurlífgun. Segir hún að þegar það hafi ekki tekist hafi hún yfirgefið heimilið og börnin sem voru í umsjá hennar og reynt að taka eigið líf. Fannst hún nokkrum klukkustundum síðar með sár sem hún hafði veitt sjálfri sér.
Þegar foreldrar mættu seinni partinn í daggæsluna til að sækja börn sín komu þau að ólæstum dyrum, börnunum einsömlum og látna barninu liggjandi í rúmi Jordan.
Jordan á að mæta fyrir rétt á mánudag, en búast má við að hún verði einnig ákærð vegna andláts barnsins þegar niðurstaða krufningar liggur fyrir.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.