Ítalski listamaðurinn Maurizio Cattlelan er frægur fyrir ögrandi innsetningar sínar. Engin er þó frægari heldur en verkið sem hefur orðið hans helsta frægðarverk – banani sem búið er að teipa fastan á vegg. Verkið varð þó nýlega fórnarlamb einnar grunnþarfar mannskepnunnar – hungurs.
Listaverkið kallast Grínistinn, eða Comedian, og er um að ræða alvöru banana sem festur er á vegg. Banananum er reglulega skipt út fyrir annan ferskan. Verkið er talið vísa til gríns meistara Charlie Chaplin og eins til stöðu ávaxtarins í alþjóðlegum viðskiptum.
Suður-Kóreski háskólaneminn Noh Huyn hugsaði þó hvorki til Chaplin né alþjóðlegar viðskipta þegar hann bar Grínistann augum. Verkið minnti nemandann á að hann hafði gleymt að fá sér morgunmat áður en hann heimsótti Leeum listasafnið í Seoul seint í apríl. Vettvangsferðin á safnið hafði tekið sinn tíma og var þarna nokkuð liðið frá hádeginu og Noh Huyn var svangur. Hann sá þá banana á veggnum, greip hann og borðaði hann og skeytti engu um skelfingaróp starfsmanns safnsins.
Það tók nemandann aðeins um eina mínútu að grípa bananann og borða hann. Þegar hann var búinn þá festi hann hýðið á sinn stað á veggnum.
Verkið er metið á um 16,5 milljónir króna. Noh útskýrði síðar fyrir forsvarsmönnum safnsins að hann hefði borðað listaverkið því hann var svangur, eða svo segir kóreska sjónvarpsstöðin KBS sem birti myndband af örlagastundinni þegar Noh sporðrenndi ígildi sumarbústaðar á Íslandi.
Noh er nemandi í fagurfræði og trúarbrögðum í háskólanum í Seoul og velti hann fyrir sér hvað hafi vakað fyrir listamanninum, að skipta út banananum reglulega svo hann virki alltaf ferskur. Taldi Noh ljóst að listamaðurinn hafi viljað að ávöxturinn yrði borðaður. Lagði hann einnig til að athæfi hans gæti í raun talist list, frekar en lögbrot, þar sem hann hafi umbreytt listaverki Cattelans og svo stillt því aftur upp.
Rétt er að taka fram að ekki varð þetta meira drama en svo að nýr banani var festur á vegginn á innan við hálftíma og mun listasafnið ekki sækja neinar bætur til Noh. Listamanninum var greint frá málinu og kippti hann sér ekki upp við það.
Þetta er í raun ekki í fyrsta sinn sem álíka atburður á sér stað. Eldri uppsetningar af grínistanum hafa selt á allt að 16,5 milljónir. Til dæmis seldist eitt slíkt árið 2019 og var þá um leið borðað af öðrum listamanni. Sá listamaður lýsti því yfir að með því að innbyrða verkið hefði hann sjálfur skapað listaverk.
Annað verk eftir Cattelan kallast Ameríka – en það er fullkomlega nothæft klósett sem búið er að húða með 18 karata gulli. Það vakti gífurlega athygli þegar því var stillt upp á Guggenheim safninu, en það var tengt og allt og hægt að nota það – verkinu var þó stolið árið 2019 og hefur ekki enn fundist.