Þær eru stundum furðulegar fréttirnar sem berast okkur utan úr heim. Nú hefur kona nokkur í Arkansas í Bandaríkjunum neitað sök í sakamáli þar sem henni er gert að sök að hafa stolið líkamspörtum af líkum sem höfðu verið gefin til læknisfræðideildar, og selt svo í gegnum Facebook fyrir um 1,5 milljón krónur.
Umrædd kona heitir Candace Chapman Scott og er 36 ára að aldri og er talin hafa selt 20 kassa, sem innihéldu allt frá húð yfir í höfuðkúpur, til karlmanns í Pennsylvaniu.
Er hún þar með talin hafa gerst sek um brot gegn lögum um póstsendingar, brot gegn lögum um peningamillifærslur og eins að hafa flutt þýfi milli ríkja í Bandaríkjunum.
Samkvæmt gögnum í málinu starfaði Candace hjá fyrirtæki sem sér um líkbrennslu. Einn viðskiptavina fyrirtækisins var var rannsóknarstofa í líffærafræði við háskólann í Arkansas, sem notaði lík sem stofunni voru gefin til að kenna læknanemum og í rannsóknarskyni. Þegar búið var að nota líkin var það svo fyrirtæki Candace sem sá um að brenna þau og skila svo öskunni aftur til háskólans.
Dag einn þegar rannsóknarstofan átti að koma og ná í sendingu til vinnustaðar Candace sendi hún skilaboð á umsjónarmann Facebook-hóps þar sem hún útskýrði að hún hefði komist yfir lík. Hópurinn kallast Oddities og er lokaður hópur um 380 meðlima þar sem á að vera hægt að selja og kaupa hvað sem er með öruggum hætti.
Sagði Candace í skilaboðunum:
„Ég fylgist með síðunni þinni og starfi og ELSKA það. Bara fyrir forvitnisskakir, þekkirðu einhvern sem Þekkirðu einhvern sem gæti verið að leita að smurðum heila í fullkomnu ásigkomulagi?“
Með skilaboðunum sendi hún myndir af tveimur heilum og hjarta. Maðurinn bauðst til að greiða 165 þúsund krónur fyrir þessi þrjú líffæri ef hún gæti sent honum þau í pósti.
Næstu níu mánuðina hélt Candace svo áfram að bjóða manninum líkamsparta. Hún sendi honum meðal annars eyra, handlegg, lungu, lifur, nýru, hendur, brjóst, getnaðarlimi, fóstur, húð, höfuðkúpur og eitt heilt höfuð. Alls fékk hún um 1,5 milljónir frá manninum í greiðslur.
Candace stundaði það að næla sér í líkamspartanna áður en líkin voru brennd, og skilaði svo afganginum af þeim til baka í öskuformi eftir brennslu.
Maðurinn sem hún átti viðskiptin við hefur líka verið ákærður, en hann er sakaður um að hafa tekið á móti þýfi og um að hafa haft ásetning til að taka þátt í ólöglegri starfsemi og misnotað lík. En áður hefur verið fjallað um hans hlut í málinu.
Málið er til komið þar sem í júlí á síðasta ári hringdi aðili í lögregluna og tilkynnti að hann hefði fundið líffæri og húð í þremur fötum í kjallara mannsins.
Segir í frétt NPR að í áðurnefndum Facebook-hóp sé enn verið að selja líkamsparta, en áðurnefndur maður segir að þeir partar hafi komið alla leið frá Frakklandi. Hann lýsir sér sem sérfræðingi í því að varðveita líkamsleifar og segist nýta þann hæfileika til að útbúa fræðslutól með því að endurnýta líkamsleifar sem notaðar hafa verið í læknisfræðilegum tilgangi.
Talsmaður háskólans í Arkansas segir að skólanum sé gróflega misboðið vegna málsins.
„Mennskar líkamsleifar eru ómetanleg hjálp í kennslu læknanema. Við sýnum gjöfum okkar alla okkar virðingu þegar þeir eru í okkar umsjón.“
Á hverju ári heldur skólinn sérstaka athöfn þar sem læknanemar heiðra þessu látnu gjafa sína sem hafa gefið líkama sína til að liðsinna þeim í námi sínu.
Lögreglan mun nú vera að reyna að bera kennsl á líkamspartanna en það er þó erfitt þar sem smurningarferlið hefur áhrif á erfðaefni.
Rétt er að taka fram að líkbrennslan sem Candace starfaði hjá hafði ekki hugmynd um málið fyrr en lögreglan hafði samband og var Candace rekin þá um leið.
Candace er í gæsluvarðhaldi þar til mál hennar verður tekið fyrir en aðalmeðfer fer fram í lok maí.