Karlmaður í Birmingham hefur gengist við því að hafa geymt lík ellilífeyrisþega i frystinum heima hjá sér í næstum tvö ár. Meðurinn neitar þó að hafa notað bankareikning ellilífeyrisþegans til að komast yfir peninga.
Ekki er óþekkt að heyra fréttir sem þessar, en þá hafa aðilar gjarnan haldið andláti eldri ástvinar eða kunningja leyndum til að geta notið góðs af lífeyrisgreiðslum hins látna. Maðurinn sem hér um ræðir, Damion Johnson, kannast þó ekki við að hafa gerst slíkt. Meðleigjandi hans, hinn 71 árs John Wainwright, hafi látið lífið í september árið 2018. Það uppgötvaðist þó ekki fyrr en í ágúst árið 2020 að John þessi væri látinn þar sem Damion hafði stungið honum í frystinn og sagði engum frá andlátinu. Dánarorsök John hefur ekki verið opinberuð.
Damion hefur gengist við að hafa komið í veg fyrir lögbundna og heiðvirða greftrun líks, en segist ekki sekur um fjárvik. Vissulega hafi hann notað peninga sem voru á bankareikningi John en það hafi hann með réttu gert þar sem hann ætti tilkall til peninganna. Damion er sakaður um að hafa notað kort John til að taka peninga úr hraðbönkum, til að borga fyrir vörur og þjónustu og eins til að leggja pening inn á sinn eigin bankareikning. Aðalmeðferð í málinu mun fara fram í nóvember.
Aðspurður um varnir Damion sagði verjandi hans að Damion líti svo á að hann hafi haft tilkall til peningan inn á reikningi John. Þeir hafi verið með samkomulag um að peningar yrðu greiddir beint til John sem svo deildi fjárhæðunum á milli þeirra.