fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Pressan

„Það hefði verið nógu slæmt ef við hefðum bara misst son okkar“

Ritstjórn Pressunnar
Föstudaginn 28. apríl 2023 22:00

Todd og Lisa Sturgeon.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Todd og Lisa Sturgeon, foreldrar hins 25 ára gamla Connor Sturgeon sem skaut fimm manns til bana og særði átta í skotárás í Louisville fyrr í þessum mánuði, stigu fram í viðtali við NBC News í gær.

Connor var skotinn til bana af lögreglu eftir ódæðisverkið en hann var starfsmaður bankans um tíma. Í viðtalinu sögðust Todd og Lisa hafa vitað að sonur þeirra glímdi við andleg veikindi en ekkert hafi bent til þess að atburður af þessari stærðargráðu væri í uppsiglingu.

Connor var öflugur íþróttamaður á sínum yngri árum og virtist framtíðin björt hjá honum þegar hann var að alast upp. Todd og Lisa segjast hafa reynt að finna ástæðu fyrir voðaverkinu en ekki getað komist að neinni rökréttri niðurstöðu. Ekkert hafi bent til þess að eitthvað þessu líkt myndi gerast.

Nógu slæmt að missa bara son sinn

Connor gekk inn í bankann vopnaður AR-15 hríðskotabyssu og skaut alls þrettán manns. Þar af létust fimm en tveir særðust alvarlega.

Árásin var framin þann 10. apríl og nú, tæpum þremur vikum síðar, eru Todd og Lisa enn í áfalli.

James Tutt, Juliana Farmer, Deana Eckert, Joshua Barrick og Tommy Elliott létust í árásinni.

„Það hefði verið nógu slæmt ef við hefðum bara misst son okkar,“ segir Lisa og bætir við að sú staðreynd að hann hafi tekið allt þetta fólk með sér í dauðann geri áfallið margfalt erfiðara. Slíkt ofbeldi gangi gegn öllu því sem Connor var kennt þegar hann var að alast upp.

Vilja nálgast aðstandendur af virðingu

Todd og Lisa segjast hafa óttast mjög að stíga fram í viðtölum við fjölmiðla. Töldu þau hættu á að þau myndu óafvitandi sýna aðstandendum þeirra sem létust einhvers konar vanvirðingu. Segir Todd að þau séu að vinna í því að nálgast aðstandendurna til að geta rætt við þá um sorgina.

Spurð hvað þau myndu segja ef þau hittu þau, sagði Lisa:

„Við erum í rusli. Hjörtu okkar eru brotin og við vildum að við gætum tekið þetta til baka, en við vitum að það er ekki hægt.“

Aðstandendur þeirra sem létust hafa ekki viljað tjá sig við fjölmiðla enn sem komið er að því er fram kemur í umfjöllun NBC.

Kvíðaköst byrjuðu fyrir ári

Sturgeon-hjónin segja að Connor hafi byrjað að sýna einkenni andlegra veikinda fyrir um ári síðan. Fékk hann kvíðaköst og var almennt mjög kvíðinn sem olli honum vanlíðan. Hjónin segja að Connor hafi verið hjá sálfræðingi og byrjaður á lyfjum og allt hafi virst stefna í rétta átt. Dagana fyrir árásina virtist eitthvað þó hafa breyst.

„Hann hringdi í mig á þriðjudeginum fyrir árásina og sagðist hafa fengið kvíðakast í vinnunni og þurft að fara heim,“ rifjar Lisa upp. Hún segist hafa spurt hann hvað hafi valdið kvíðakastinu en hann ekki getað sagt til um það. Hún kveðst hafa minnt hann á að hún og faðir hans stæðu með honum.

Daginn eftir borðaði hún hádegismat með Connor og fékk tíma fyrir hann hjá sálfræðingi á fimmtudeginum, fimm dögum fyrir árásina. Sturgeon-hjónin og Connor hittu sálfræðinginn öll saman á myndbandsfundi og segir hún að Connor hafi virst líða mun betur eftir tímann. Þau sáu svo son sinn á páskadag, daginn fyrir árásina, en um kvöldið horfði hann á Masters-mótið í golfi með vini sínum. Ekkert benti til þess að hann væri í mikilli andlegri krísu daginn fyrir árásina.

En síðar kom á daginn að Connor hafði keypt byssuna sem hann notaði á fimmtudeginum, sama dag og hann hitti sálfræðinginn.

Þennan örlagaríka mánudag segist Lisa hafa fengið símtal frá herbergisfélaga Connors sem sagðist hafa fengið óhugnanleg skilaboð frá honum. Sagðist Connor ætla að „skjóta upp Old National-bankann“.

Gagnrýna skotvopnalöggjöfina

Það sem gerðist í kjölfarið er hálf þokukennt í huga hjónanna. Hið ólýsanlega hafði gerst og áður en Lisa gat brugðist við var Connor þegar kominn í bankann og byrjaður að skjóta á fólk.

Í viðtalinu ræða þau einnig um skotvopnalöggjöfina í Bandaríkjunum og gagnrýna það harðlega að sonur þeirra hafi mátt kaupa jafn öflugt vopn og AR-15 er. Ekki undir neinum kringumstæðum hefði hann átt að fá aðgang að slíku vopni sem þó var löglega keypt.

„Við vonum að það skapist einhver umræða um þetta. Ég held að mikill meirihluti Bandaríkjamanna sé mótfallinn því að maður í hans ástandi geti haft aðgang að skotvopnum,“ segir Todd. Hann segist ekki vera með tillögu að úrbótum en eitthvað þurfi að breytast. „Hversu margar skotárásir hafa verið í Bandaríkjunum bara á þessu ári?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Þetta er ástæðan fyrir að þú vaknar stundum rétt áður en vekjaraklukkan hringir

Þetta er ástæðan fyrir að þú vaknar stundum rétt áður en vekjaraklukkan hringir
Pressan
Fyrir 2 dögum

Milljónamæringur arfleiddi heimabæ sinn að auðnum með einu skilyrði

Milljónamæringur arfleiddi heimabæ sinn að auðnum með einu skilyrði
Pressan
Fyrir 4 dögum

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Undraland vetrarins“ sagt vera hrein blekking

„Undraland vetrarins“ sagt vera hrein blekking