Þetta sagði Sean Kirkpatrick, forstjóri AARO-skrifstofu Bandaríkjahers, í síðustu viku þegar hann kom fyrir þingnefnd. AARO-skrifstofan er í daglegu tali nefnd „Fljúgandi furðuhluta skrifstofan“.
Kirkpatrick sagði að starfsfólk AARO hafi ekki fundið sannfærandi sannanir fyrir því að vitsmunaverur frá öðrum plánetum séu hér að verki né sannanir um að hér sé um tækni eða hluti sem brjóta gegn eðlisfræðilegum lögmálum. Politico skýrir frá þessu.
Hann sagði að nú væri verið að rannsaka um 650 tilkynningar um fljúgandi furðuhluti en aðeins verði kafað djúpt ofan í um helming þessara tilkynninga. Hann sagði einnig að aðeins örlítið prósenta tilkynninga af þessu tagi falli undir það sem segja megi óeðlilegt.
Kirkpatrick sagði að flestar þær tilkynningar sem berast til AARO séu vegna blaðra, rusls, náttúrulegra fyrirbæra eða annarra auðskýranlegra þátta.
Hann var spurður hvort rekja megi eitthvað af þessum málum til rússneskrar eða kínverskrar tækni í ljósi þess að kínverskir njósnaloftbelgir voru skotnir niður yfir Bandaríkjunum fyrr á árinu.
Hann sagði að engar sannanir hafi komið fram fyrir slíku. „Er tækni til staðar sem er hægt að nota til að njósna um okkur eða á vopnasviðinu? Örugglega. Hef ég sannanir fyrir að þau (erlend ríki, innsk. blaðamanns) séu að verki í þessum tilfellum? Nei, en vísbendingarnar vekja áhyggjur mínar,“ sagði hann.