Lögreglan í Arvada í Colorado í Bandaríkjunum hefur handtekið þrjá unglingspilta sem grunaðir eru um að hafa valdið dauða hinnar tvítugu Alexu Bartell á dögunum.
Alexa var að keyra heim til sín að kvöldi miðvikudags í síðustu viku þegar hún missti skyndilega stjórn á bifreið sinni. Bifreiðin fannst utan vegar og var stórt gat í framrúðunni og Alexa látin undir stýri.
Í ljós kom að grjóthnullungi hafði verið kastað í framrúðuna og lenti hann á höfði stúlkunnar sem lést af sárum sínum. Fleiri ökumenn lentu í sambærilegum uppákomum þetta kvöld og slösuðust tveir til viðbótar.
Piltarnir sem voru handteknir eru allir 18 ára gamlir og eiga þeir yfir höfði sér ákæru fyrir morð af fyrstu gráðu og lífstíðarfangelsi. Þeir voru handteknir í fyrrakvöld og eru allir búsettir í Arvada.
Í frétt CBS News kemur fram að hnullungunum hafi verið kastað úr svartri Chevrolet Silverado-bifreið sem piltarnir voru á. Virðist sem um handahófskenndar árásir hafi verið að ræða gegn grunlausum ökumönnum.