Árið 1985 át svartbjörn nokkur í skóglendi Georgíufylkis í Bandaríkjunum innihald poka sem fleygt hafði verið úr flugvél nokkru áður. En bangsi, sem aðeins var um 80 kíló að þyngd, hefði betur látið innihald pokans vera því það reyndust vera 40 kíló af hreinu kókaíni.
Bangsi át það allt og þegar hin makalausa saga kom smám saman í ljós gáfu fjölmiðlar birninum eðlilega nafnið Pablo Escobear, í höfuðið á fíkniefnabaróninum Pablo Escobar.
Spillta fíkniefnalöggan
Nú á dögunum var frumsýnd kvikmyndin Cocaine Bear, hryllings/gamanmynd sem sögð er byggja á málinu. Fjallar hún um björn sem jú, étur kókaín og verður morðóður í kjölfarið. Myndin er sögð byggja á sönnum atburðum en svo er ekki.
Um það bil það eina sem kvikmyndin hefur rétt eftir er að svartbjörn át gríðarlegt magn kókaíns.
Í ljós kom að maður að nafni Andrew Thornton, fyrrverandi fíkniefnalögga sem hafði snúið að öllu ábatasamara starfi sem fíkniefnismyglari, var ábyrgur fyrir fíkniefnunum.
Hann var að koma frá Kólumbíu í Cessna vél sinni í september 1985 en þaðan var hann að smygla kókaíni að virði fleiri milljóna dollara.
Andrew Carter Thornton var kominn af efnafólki sem ræktaði verðlaunahesta í Kentucky. Hann fékk orðu fyrir hugrekki í flughernum og gekk síðan í lögregluna þar sem hann flaug upp metorðastigann enda með afbrigðum klár náungi.
Hann hætti í lögreglunni árið 1977, eftir níu ára flekklausan feril, og hóf nám í lögfræði.
Kókaín um allar trissur
Hvað nákvæmlega gerðist síðan veit enginn með vissu en Thornton sneri baki við laganáminu og fór að einbeita sér að glæpastarfsemi. En eins og fyrr segir var hann snjall og náði ítrekað að forðast dóma, þrátt fyrir handtökur.
En að því kom að gæfan sneri við Thornton við bakinu þegar hann stökk út úr vél sinni. Hann hafði næstum örugglega hent dópinu út vélinni sökum of mikillar þyngdar.
En það varð samt sem áður ekki Thornton til lífs því hann fannst látinn í Tennessee, næsta fylki við Georgiu, og var töluvert magn kókaíns bundið við líkama hans.
Thornton hefði því sennilegast átt að henda meiru úr vélinni.
Þegar að Andrew Thornton fannst grunaði yfirvöld, réttilega, að hugsanlega hefði meira kókaín verið í Cessna vélinni sem fannst á svipuðum tíma og sennilegast hefði það dreifst út og suður.
Því var hafin mikil leit ekki leið á löngu þar til bangsi fannst. Hann hafði því miður fundið eiturlyfin á undan lögreglu og verið dauður í um mánuð. Við hlið því litla sem eftir var af birninum fannst pokinn og í honum 40 plastpokar, svo að segja allir tómir.
Hver poki hafði innihaldið eitt kíló af kókaíni og hafði bangsi því étið 40 kíló af efninu upp til agna.
Líkamsleifarnar hreint kókaín
Eðlilega lést svartbjörninn og var ekkert eftir af honum nema skinnið og beinahrúga sem réttarmeinafræðingur sagði síðar vera lítið annað en hreint kókaín.
Til viðmiðunar má nefna að á líki Thorntons voru 35 kíló af efnunum, fimm kílóum minna en bangsinn mun hafa étið.
Ekki langt frá leifunum af bangsa fundust fjórir aðrir pokar af af sama efni, allt í allt rúmlega 100 kíló af kókaíni, en sem betur fer höfðu engin dýr komist í þá poka.
Pablo Escobear er þvi mjög sennilega eini bangsinn í heiminum sem hefur dáið hefur úr of stórum skammti fíkniefna.