Frank vann við lagningu leiðslu í Alaska þegar hann ákvað að fara í veiðiferð norður fyrir heimskautsbaug með vini sínum.
„Hann var mjög sjálfstæður og elskaði útivist. Honum líkaði vel að gera hlutina eins og hann vildi gera þá,“ sagði bróðir hans, Steven.
Félagarnir fóru á veiðar nærri Porcupine River í norðausturhluta Alaska. Þar urðu þeir viðskila og sá vinurinn Frank aldrei aftur.
Fyrir rúmlega 25 árum fannst höfuðkúpa í óbyggðum Alaska, um 13 kílómetra frá kanadísku landamærunum, en það var ekki fyrr en nýlega sem yfirvöld staðfestu að hún er af Frank.
Það var í apríl á síðasta ári sem ríkislögreglan í Alaska ákvað að hefja rannsókn á málinu á nýjan leik eftir að það tókst að ná DNA úr höfuðkúpunni. Með því að bera það DNA saman við DNA úr Steven bróður hans tókst að bera kennsl á höfuðkúpuna.
Steve, sem er nú 76 ára, sagði í samtali við NY Times að unnið hafi verið að því síðustu 45 árin að fá botn í málið og nú hafi loksins fengist svar.
Talsmaður lögreglunnar sagði að höfuðkúpan beri þess merki að Frank hafi orðið fyrir árás bjarndýrs en bitför eru á höfuðkúpunni.