Eftir að hin pólska Julia, sem ýmist er sögð bera eftirnafnið Faustyna, Wandelt eða Wendell, steig fram og sagðist sannfærð um að hún væri í raun breska stúlkan Madeleine McCann, má segja að allt hafi farið á hliðina og hefur hver fréttin eftir annari vakið töluverða athygli.
Nú hafa þó nýjar vendingar komið fram í málinu en pólska lögreglan segir í samtali við fréttamiðilinn Gazeta í gær að rannsókn þeirra hafi leitt í ljós að útilokað sé að Julia sé í raun Madeleine. Ekki sé búið að ljúka rannsókninni en þó sé búið að komast að þessari niðurstöðu. Lögreglan vildi þó ekki skýra nánar hvaða gögn þeir byggja þetta mat sitt á.
New York Post greindi frá því í gær að fjölskylda Juliu hafi þverneitað því að gangast undir erfðafræðirannsókn til að sanna að þau séu líffærðilega skyld Juliu. Móðir Juliu sagðist þó geta sannað að Julia sé dóttir hennar með bæði myndum og fæðingarvottorði.
Það var í síðustu viku sem Julia setti netheima á hliðina þegar hún birti myndbönd með þeirri kenningu sinni að hún sé Madeleine sem hvarf frá hótelherbergi sínu í Portúgal árið 2007 en hún hafði þar verið í fríi með fjölskyldu sinni.
Julia telur ýmislegt styðja þessa kenningu, svo sem að bæði hún og Madeleine eru með sama fæðingargalla í augasteini. Hún segir að foreldrar hennar hafi farið undan í flæmingi þegar hún reyndi að ræða æsku sína við þau og kennarar í skóla hennar hafi ekki kannast við að hún hafi þar verið nemandi fyrstu árin sem hún hefði átt að vera þar.
Hún hefur einnig greint frá því að hafa verið misnotuð sem barn af þýskum barnaníðingi sem gæti verið sá hinn sami og var á síðasta ári handtekinn vegna gruns um að hann tengist hvarfi Madeleine.
Julia hefur greint frá því að McCann fjölskyldan hafi haft samband við hana og beðið hana um að gangast undir erfðafræðirannsókn svo hún geti sannað hvort hún sé dóttir þeirra.
Fjölskylda Juliu gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún sagði að Julia væri vissulega líffræðilega skyld þeim og sögðu að Julia glími við andleg veikindi og hafi neitað læknisaðstoð og neitað að taka inn lyfin sín. Henni hafi alltaf dreymt um frægð og frama og líklega hafi hún farið af stað með þetta mál til að afla sér fylgjenda á samfélagsmiðlum.