Þrír kálfar, sem voru klónaðir frá „ofurkúm“ fæddust í Ningxia-héraðinu í desember og janúar að sögn Ningxia Daily ríkisfjölmiðilsins. Er þessu afreki kínverskra vísindamanna fagnað og sagt að þetta geti skipt miklu máli fyrir kínverskan mjólkuriðnað. Nú verði hann ekki eins háður innfluttum tegundum.
Kálfarnir voru klónaðir frá afburðakúm af Holstein Friesian kyninu sem er upprunnið í Hollandi. Kýrnar, sem voru notaðar, framleiða allt að 18 tonn af mjólk á ári. Þetta er um 1,7 sinnum meira magn af mjólk en meðalkýr í Bandaríkjunum framleiddu 2021 samkvæmt upplýsingum frá bandaríska landbúnaðarráðuneytinu. CNN skýrir frá þessu.
Kínversku vísindamennirnir gerðu 120 klónuð fóstur úr frumum þessar vel mjólkandi kúa og komu fyrir í „staðgöngumæðrum“.
Allt að 70% af mjólkurkúm Kínverja eru fluttar inn erlendis frá að sögn the Global Times. Klónun „ofurkúa“ er því mikilvægt skref fyrir kínverskan mjólkuriðnað.