Maðurinn, sem var skotinn, er á þrítugsaldri að sögn Aftonbladet sem segir að hann hafi verið skotinn mörgum skotum. Hann er sagður hafa verið með meðvitund þegar hann var fluttur á sjúkrahús. Talsmaður lögreglunnar sagði að samkvæmt upplýsingum sem hann hefði fengið sé maðurinn ekki í lífshættu.
Tveir hafa verið handteknir, grunaðir um morðtilraun. Þeir eru báðir á þrítugsaldri að sögn talsmanns lögreglunnar. Þeir eru sagðir hafa flúið af vettvangi á rafmagnshlaupahjólum en komust ekki langt því þeir voru handteknir þar sem þeir voru í felum í stigagangi annars fjölbýlishúss, ekki langt frá vettvangi árásarinnar.
Aftonbladet segir að skotárásin tengist átökum glæpagengja.
Í Södertälje sprungu tvær sprengjur með 24 mínútna millibili á öðrum tímanum í nótt. Aðeins eru nokkur hundruð metrar á milli staðanna þar sem þær sprungu. Aftonbladet hefur eftir talsmanni lögreglunnar að sprengjurnar hafi sprungið við einbýlishús og að fólk hafi verið innandyra. Enginn slasaðist.