Taylor Schabusiness er 25 ára gömul kona sem hefur verið ákærð fyrir að hafa banað ástmanni sínum. Hún vakti athygli á þriðjudag eftir að hún veittist að verjanda sínum í dómsal og barði hann í höfuðið.
Taylor réðst á verjanda sinn, Quinn Jolly, eftir að dómari stakk upp á því að réttarhöldum yrði frestað fram í maí. Sú beiðni hafði komið frá verjanda Taylor sem greinilega var þó ekki sammála því að betra væri að hafa lengri tíma til undirbúnings.
Brást Taylor ókvæða við þegar dómarinn féllst á beiðnina og réðst á Quinn með höggum. Öryggisvörður yfirbugaði hana að lokum og lauk þá árásinni.
Taylor er sökuð um að hafa afhöfðað elskhuga sinn á meðan á samförum þeirra á milli stóð. Hafi hún svo haldið áfram að stunda kynferðislegar athafnir með lífvana líkamanum og svo hafi hún stungið höfðinu og afskornum lim elskhugans í fötu og stungið öðrum líkamspörtum í pott og þannig kom móðir fórnarlambs hennar að vettvangi.
Taylor, sem er gift öðrum manni, fannst svo á heimili sínu þakin blóði og er sögð hafa sagt við lögreglumenn að þeir gætu „skemmt sér við að finna öll líffærin“
Taylor hefur borið því við að hún sé ósakhæf sökum andlegra veikinda. Hún hefur sagt að hún og fórnarlambið hafi verið að reykja fíkniefni áður en þau fóru heim til móður hans til að stunda kynlíf. Hún hafi ekki ætlað að drepa hann en viðurkennir þó að hún hafi setið ofan á honum og beðið þess að hann léti lífið á meðan hann hóstaði upp blóði. „Já mér fannst þetta gaman,“ sagði hún.
Verjandi hennar hafði farið fram á lengri frest til að undirbúa málsvörnina og láta meta sakhæfi Taylor. Fyrir áramót komst dómkvaddur læknir að þeirri niðurstöðu að Taylor væri sakhæf en verjandi hennar hefur mótmælt þeirri greiningu. Hann hefur bent á að Taylor er greind með geðhvörf og hefur verið í meðferð við andlegum veikindum síðan hún var í grunnskóla.