Þetta er niðurstaða hæstaréttar Ítalíu. Foreldrar tveggja barna áfrýjuðu dómi undirréttar sem hafði neytt börnin til að eyða tíma með föðurforeldrum þeirra.
Málið hófst þegar föðurforeldrar barnanna og föðurbróðir þeirra höfðuðu mál fyrir dómstóli í Mílanó og sögðust ekki fá að hitta börnin vegna „hindrana af hálfu foreldra þeirra“ en engin samskipti voru á milli málsaðila vegna fjölskyldudeilna.
Föðurforeldrarnir höfðu sigur fyrir ungmennadómstóli í Mílanó og áfrýjunardómstóli sem tók málið fyrir árið 2019 og úrskurðaði að börnin skyldu hitta afa sinn og ömmu undir eftirliti starfsmanns félagsþjónustunnar. Í dómsniðurstöðunni voru foreldrar barnanna varaðir við þeim andlega skaða sem börnin gætu orðið fyrir ef komið væri í veg fyrir að þau hittu föðurforeldra sína.
The Guardian segir að vörn foreldranna hafi byggst á að börnin vildu ekki hitta föðurforeldra sína vegna fjölskyldudeilnanna.
Í dómi hæstaréttar segir að þrátt fyrir að „enginn vafi“ leiki á að börnin myndu hafa ávinning af því að umgangast afa sinn og ömmu þá hafi þau látið í ljós andstöðu við að þurfa að umgangast þau og því sé ekki hægt að neyða þau til þess, sérstaklega ekki þegar um fjölskyldudeilur er að ræða.
Niðurstaða dómsins var að hagsmunir barnanna verði að vera yfir hagsmuni föðurforeldranna hafnir og ekki megi þvinga þau til að eiga samskipti við föðurforeldrana og það eigi enn frekar við ef börnin hafa náð 12 ára aldri og dómgreind þeirra sé orðin þroskuð.