Geimurinn virðist endalaus þegar maður horfir upp í hann að næturlagi en samt sem áður er ekki endalaust pláss þar, að minnsta kosti ekki á braut um jörðina. Gervihnöttum fer sífellt fjölgandi og eru í raun að verða of margir.
The Independent segir að nú þegar sé áætlað að skjóta 44.000 gervihnöttum til viðbótar upp og setja á braut um jörðina.
Geimvísindamenn hafa varað við þessu og bent á að þegar líftími gervihnattanna er liðinn þá verði þeir að rusli í geimnum sem geti gert okkur hér niðri á jörðinni erfitt fyrir við að sjá fjarlægar stjörnur og stunda rannsóknir á geimnum og því sem í honum er.
Núna eru rúmlega 8.000 gervihnettir á braut um jörðina og Space X hefur í hyggju að senda 44.000 til viðbótar á braut um jörðina. Margir af þessum gervihnöttum sjá um fjarskiptasamband hér niðri á jörðinni og eru okkur því mjög mikilvægir.