Það voru nágrannar sem tilkynntu um eldinn skömmu fyrir klukkan eitt. Einn nágranninn, sem er menntaður slökkviliðsmaður, náði að bjarga einum íbúa hússins út áður en slökkviliðið kom á vettvang. En hinir íbúarnir, konan og sjö börn hennar á aldrinum 2-14 ára, komust ekki út. Þetta voru fimm stúlkur og tveir drengir.
Lögreglan segir að þau hafi látist af völdum reykeitrunar.
Það var eiginmaður konunnar og faðir þriggja af börnunum sem lifði af. Hann brenndist mjög mikið og liggur á sjúkrahúsi.
Lögreglan telur að eldurinn hafi kviknað í þurrkara á neðri hæð hússins.
Fjölskyldufaðirinn virðist hafa reynt að slökkva eldinn á meðan börnin og móðir þeirra flúðu upp á efri hæðina. En þar enduðu þau í reykgildru að sögn lögreglunnar.
Slökkviliðsmenn áttu erfitt með að komast upp á efri hæð hússins utan frá því húsið stendur við mjög þrönga götu og því var erfitt að setja stiga upp við það. Einnig voru hlerar fyrir gluggum og ekki var hægt að opna þá því þeir eru rafknúnir og rafmagnið var farið af húsinu vegna eldsins.
80 slökkviliðsmenn voru sendir á vettvang.
Þetta er mannskæðasti eldsvoðinn í Frakklandi síðan 2013 en þá létust fimm börn á aldrinum 2-9 ára af völdum reykeitrunar.