Enskur ellilífeyrisþegi, Susan Watson, var á dögunum gert að greiða sekt fyrir að dreifa rusli á almannafæri. Það væri ekki frá sögu færandi nema fyrir þá staðreynd að hið meinta rusl sem Watson, sem er 68 ára gömul, dreifði var brauð sem ætlað var öndum sem voru á svamli í á sem liggur í gegnum bæinn.
Daily Mail greinir frá þessu en atvikið átti sér stað í bænum Tonbridge í Kent-sýslu í Suðaustur-Englandi. Watson hefur verið búsett í bænum í tvo áratugi og var á röltinu við árbakkann. Hún var með brauðsneið meðferðis og braut hana niður í smærri bita og henti til fuglanna. Henni var talsvert brugðið þegar bæjarstarfsmaður kom hlaupandi á eftir henni, sagði henni að hún hefði brotið gegn reglugerðum bæjarins og sektaði hana um 150 pund. Gegn greiðslu innan 10 daga þá var sektarupphæðin lækkuð niður í 100 pund, andvirði 17 þúsund króna.
Í viðtali við breska miðilinn sagðist Watson hafa verið miður sín vegna sektarinnar og beðið starfsmanninn um að gefa sér frekar viðvörun en það hafi hann ekki fallist á. Hún hafi aldrei áður gerst brotleg með neinum hætti og ekki þorað öðru en að borga sektina.
Hún hafði svo samband við borgaryfirvöld vegna málsins en rakst til að byrja með á veggi innan stjórnsýslunnar. Að endingu komst þó skriður á málið sem endaði með því að sektin var endurgreidd og bæjaryfirvöld báðu Watson afsökunar.