Hann fannst þegar norskir fornleifafræðingar voru við uppgröft í Svingerud og er nafn steinsins dregið af staðnum, hann heitir Svingerud-steinninn. Talið er að hann sé 1.800 til 2.000 ára gamall.
Steinninn verður fljótlega til sýnis hjá Kulturhistorisk Museum í Osló sem segir að hann sé eitt elsta þekkta dæmið um norrænt ritmál.
Steinninn fannst í gröf þar sem voru mannabein og trékol, líklega eftir líkbrennslu. Videnskab skýrir frá þessu.
Með því að nota kolefnisgreiningu komust vísindamenn að því að beinin eru frá tímabilinu frá 25 fyrir krist þar til 120 eftir krist.
Það er hægt að nota kolefnisgreiningu til að aldursgreina lífverur en ekki steina. En þar sem steinninn var með beinunum er talið að hann sé frá sama tíma.
Fyrrgreint tímabil er á þeim tíma sem er kallaður rómversk járnöld. Hún hófst árið 1 og stóð yfir þar til 375-400 eftir krist. Á þessum tíma áttu Norðurlandabúa í töluverðum samskiptum við Rómarveldi. Viðskipti voru stunduð og rómverskir hermenn lögðu leið sína til Skandinavíu.
Rómverjar áttu sér ritmál á þessum tíma og rúnirnar á Svingerud-steininum styrkja kenningu um að á Norðurlöndunum hafi þetta hvatt fólk til að eignast eigi ritmál.
Fundi steinsins var haldið leyndum í rúmlega eitt ár á meðan fornleifafræðingar og tungumálasérfræðingar rannsökuðu hann.
Átta rúnir eru mjög greinilegar á steininum. Ef þær eru umskrifaðar yfir á nútímamál stendur: „idiberug“. Talið er hugsanlegt að textinn snúist um konu að nafni Idibera. Kannski stendur: „Fyrir Idibera“ á steininum að sögn Kristel Zilmer, sérfræðings í ritmenningu og táknmyndafræði við Oslóarháskóla.
Rannsóknum á steininum er ekki lokið.