Á fimmtudaginn fór starfsfólk félagsþjónustunnar að húsinu eftir að nágrannar höfðu tilkynnt að þeir heyrðu barnsraddir berast frá húsinu en hins vegar væri aldrei nein börn að sjá þar.
Þegar starfsfólk félagsþjónustunnar kom að húsinu veittist húsráðandinn, 54 ára karlmaður, að þeim með piparúða. Þá var lögreglan kölluð á vettvang. Þegar þar var komið við sögu hótaði maðurinn að drepa börnin sem væru í húsinu og því réðst lögreglan til inngöngu.
Í kjallaranum fundu lögreglumenn fertuga konu og sex börn á aldrinum sjö mánaða til fimm ára. Þau voru strax flutt á sjúkrahús. Læknisskoðun leiddi í ljós að þau voru ekki vannærð eða illa haldin eftir dvölina í kjallaranum.
Bild hefur eftir Erich Greil, varabæjarstjóra í Obritz, að nú þurfi að bera kennsl á börnin. Þau séu ekki á skrá yfir íbúa bæjarins og bæjarbúar hafi aldrei séð þau.
Bráðabirgðaniðurstöður lögreglurannsóknarinnar benda til að maðurinn sé svokallaður „prepper“ sem sé undir það búinn að heimsendir verði, eða allt að því heimsendir. Hann hafi því sankað að sér miklu magni matar og haldið sig eins mikið út af fyrir sig og hann gat.
Honum hefur verið sleppt úr haldi en börnin eru í umsjá félagsmálayfirvalda.