Breska fyrirtækið Henley & Partners birti nýlega árlegan lista sinn yfir vegabréf heimsins og hversu öflug þau eru.
Á toppi listans trónir japanska vegabréfið sem veitir handhöfum heimild til að ferðast til 193 ríkja án þess að vera með vegabréfsáritun eða með því að geta fengið áritun við komuna til áfangastaðarins. Þar á eftir koma Singapúr og Suður-Kórea en vegabréf þessara ríkja veita handhöfum heimild til að ferðast til 192 ríkja.
Þar á eftir koma Þýskaland og Spánn með 190 ríki og þar á eftir Finnland, Ítalía og Lúxemborg með 189 ríki sem handhafar þarlendra vegabréfa geta ferðast til.
Ísland er í þrettánda sæti en íslensk vegabréf veita handhöfum heimild til að ferðast til 181 ríkis.
Á botni listans er Afganistan en afgönsk vegabréf veita aðeins heimild til áritanalausra ferða til 27 ríkja.