Sky News segir að vísindamenn hafi fundið nýlenduna með því að notast við gervihnattarmyndir. Á þeim sást skítur fuglanna, sem stingur mjög í stúf við hvítan snjóinn, og þannig áttuðu vísindamenn sig á tilvist nýlendunnar.
Dr Peter Fretwell, sem stýrði rannsókninni, sagði að þetta sé mjög spennandi uppgötvun og að nýjar gervihnattarmyndir hafi gert vísindamönnum kleift að finna margar nýjar mörgæsanýlendur. Hann sagði að það séu góðar fréttir að þessi nýlenda hafi fundist en eins og margar nýlendur, sem hafa fundist nýlega, þá sé hún lítil og á svæði sem hefur orðið illa fyrir barðinu á ístapi.
Vísindamenn hafa leitað að áður óþekktum mörgæsanýlendum síðustu 15 árin með því að notast við gervihnattarmyndir. Þeir hafa nánar tiltekið leitað að ummerkjum um mörgæsaskít á þeim.
Helmingur þekktra nýlenda hefur fundist með því að notast við gervihnattarmyndir.