NBC hefur eftir Debbie Ruddock, sveitarstjórnarmanni á svæðinu, að fórnarlömbin hafi verið kínverskir bændur.
67 ára maður var handtekinn vegna morðanna klukkan 16.40 í gær að staðartíma. Þá voru um tvær og hálf klukkustund liðin frá morðunum. Nafn hans er sagt benda til þess að hann sé af kínverskum uppruna. Bíll hans fannst á bifreiðastæði við spennistöð. Vopn fundust í bílnum. Hann veitti ekki mótspyrnu við handtökuna.
Árásirnar voru gerðar á Mountain Mushroom Farm og Concord Farms. ABC7 hefur eftir lögreglumönnum að hinn handtekni hafi starfað á öðrum eða báðum bæjunum og að hinir látnu hafi verið vinnufélagar hans.
Þetta er í annað sinn á nokkrum dögum sem fjöldamorð er framið í Kaliforníu. Um helgina voru 11 skotnir til bana í Monterey Park í Los Angeles.
Í gær voru tveir unglingar skotnir til bana í skóla í Iowa. Það er því lítið lát á ofbeldisverkum í Bandaríkjunum.