Hún hét Jacquelin „Jacqui“ Montgomery og var aðeins 15 ára. Morðið skók samfélagið í Islington í norðurhluta Lundúna. Þetta var árið 1975.
Nú, tæplega hálfri öld síðar, hefur málið loksins verið leyst og dómur er fallinn í því.
BBC og Sky News segja að Dennis McGrory hafi verið fundinn sekur um að hafa beitt Jacqui hrottalegu ofbeldi og myrt hana.
Grunur lögreglunnar beindist að McGrory á sínum tíma og hann var ákærður fyrir níðingsverkið. En dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru nægar sannanir til að hægt væri að sakfella hann og því var hann sýknaður.
Hann gekk því laus í tæpa hálfa öld eða þar til systir Jacqui fór fram á að ný DNA-rannsókn yrði gerð með tækni sem var ekki til árið 1975.
Niðurstaðan var að lífsýni, sem fundust á líkinu, reyndust vera úr McGrory sem er nú 75 ára.
Hann var ákærður á nýjan leik og nú var hann fundinn sekur um að hafa beitt Jacqui hrottalegu ofbeldi og að hafa myrt hana.
Dómarinn sagði að McGrory hafi verið „brjálaður af reiði“ þegar hann myrti Jacqui en hann hafði komið heim til hennar þegar hann var að reyna að finna frænku hennar, Josie Montgomery, sem var fyrrum unnusta hans.
Saksóknari sagði að McGrory hefði áður hótað að nauðga Jacqui og að á þessu júníkvöldi 1975 hefði hann gert alvöru úr hótunum sínum.
Dómarinn sagði að hann hafi haft „óendurgoldinn kynferðislegan áhuga“ á Jacqui.
McGrory hefur ávallt neitað sök.
Hann var dæmdur í 25 ára og 126 daga fangelsi hið minnsta.