Lögreglan segir að um „markvissa árás“ hafi verið að ræða og að fólkið hafi verið tekið af lífi. Beinist grunur hennar að átökum glæpagengja og leitar lögreglan að tveimur mönnum hið minnsta. ABC News skýrir frá þessu.
Lögreglunni var tilkynnt um skot í húsi í Goshen, sem er um 350 km frá San Francisco, klukkan 03.30 aðfaranótt mánudags. Þegar lögreglumenn komu á vettvang fundu þeir fimm lík. Tvö voru við götuna, eitt í anddyri hússins, þar sem árásin átti sér stað, og hin inni í húsinu. Einn af þolendunum var á lífi og var strax fluttur á sjúkrahús en lést þar af völdum áverka sinna.
Meðal fórnarlambanna voru Alissa Parraz, 17 ára, og sonur hennar, Nycholas Parraz 10 mánaða. Þau voru bæði skotin í höfuðið að sögn Mike Boudreaux, lögreglustjóra.
Auk Alissa og Nycholas voru þau Rosa Parraz, 72 ára, Eladio Parraz Jr, 52 ára, Jennifer Analla, 50 ára, og Marcos Parraz, 19 ára, myrt. Þau voru öll úr sömu fjölskyldunni.
Fyrir viku síðan gerði lögreglan leit í húsinu vegna gruns um fíkniefnamisferli. Af þeim sökum telur hún að morðin tengist átökum glæpagengja.