Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem var birt í byrjun árs. Daily Mail skýrir frá þessu.
Fram kemur að bandarískir vísindamenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það að drekka meira vatn „geti hugsanlega hægt á öldrunarferlinu“ og hvetja þeir fólk því til að drekka átta glös af vatni daglega.
Rúmlega 11.000 manns, 30 ára og eldri, tóku þátt í rannsókninni. Vísindamenn mældu magn natríums í blóði fólksins en það eykst þegar fólk drekkur of lítið.
Niðurstaðan var að fólk með meira magn natríums var 64% líklegra til að fá ýmsa sjúkdóma, til dæmis hjartaáfall og heilablæðingu, en þeir sem mældust með miðgildi hvað varðar magn natríums.
Fólk, sem var með meira magn natríums, var einnig líklegra til að deyja ungt.
Vísindamennirnir segja að hugsanlega geti lítil vatnsneysla valdið skaða á DNA og bólgum og þannig flýtt öldrun.
Dr Natalia Dmitrieva, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að niðurstöðurnar bendi til að það að innbyrða nægilegt magn vökva geti hægt á öldrunarferlinu og lengt þann tíma sem fólk glímir ekki við sjúkdóma. Hún sagði að ekki þurfi endilega að drekka vatn til að uppfylla vökvaþörfina, það sé líka hægt að drekka safa eða borða grænmeti eða ávexti sem innihalda mikið af vatni.