Aðfararnótt 1. september árið 1961 hvarf hin 8 ára gamla Ann Marie Burr af heimili sínu. Hún sást aldrei framar.
Fyrr um kvöldið höfðu Ann Marie og systir hennar, Julie, farið inn í svefnherbergi foreldra sinna og beðið um að fá að lúlla með mömmu og pabba. En foreldrar systranna voru lúin og sendu þær aftur í herbergið sem þær deildu með þeim orðum að nú ættu þær að fara að sofa.
Julie sofnaði svo að segja strax en þegar hún, og aðrir fjölskyldumeðlimir vöknuðu, var Ann Marie horfin.
Eins og jörðin hefði gleypt stúlkuna
Það eina sem einhver hafði orðið var við var gelt í heimilishundinum en foreldrar stúlknanna höfðu litlar áhyggjur af því þar sem úti var hellidemba sem voffa var illa við. Hann var vanur að gelta þegar rigning skall á húsinu.
Það var móðir Ann Marie sem fyrst uppgötvaði að dóttir hennar var horfin. Hún var vön að fara snemma á fætur og þegar hún leit inn til dætra sinna um klukkan 5:30 um morguninn var Julie steinsofandi en Ann Marie hvergi að sjá.
Það voru engin ummerki um átök en útidyrahurðin var ólæst og að hluta til opin. Móðir Ann Marie var þess fullviss um að hún hefði læst dyrunum kvöldið áður, eins og hennar var vani á hverju kvöldi.
Auk þess var stofuglugginn galopinn og hafði garðbekkur verið færður til og settur fyrir utan gluggann.
Fáar vísbendingar
Fjölskyldan leitaði að Ann Marie út um allt hús, undir rúmum, inni í skápum og reyndar alls staðar sem þeim kom til hugar í þeirri von að telpan hefði farið á stjá um nóttina. Kannski hafði hún farið að ná sér í vatnsglas en orðið þreytt og lagt sig einhvers staðar í húsinu?
En leitin skilaði engu og haft var samband við lögreglu.
Það fannst skófar eftir íþróttaskó á bekknum og í moldinni fyrir utan stofugluggann. Einnig fannst stakt rautt hár fast við gluggalásinn. Engar aðrar vísbendingar fundust.
Í samtölum lögreglu við nágranna kom í ljós að nokkrir þeirra höfðu orðið varir við einstakling horfa inn um glugga á heimilum þeirra en enginn gat lýst viðkomandi.
Einn af nágrönnum Ann Marie og fjölskyldu hennar var enginn annar en hinn alræmdi fjöldamorðingi Ted Bundy. Hann var aðeins fjórtán ára þegar að Ann Marie hvarf og engan grunaði táningin um að eiga þátt í hvarfinu.
Hann var þögull og feiminn drengur sem flestum líkaði vel við. Það átti aftur á móti eftir að breytast mörgum árum síðar þegar í ljós kom að Bundy var ofbeldisfullur sadisti, kynferðisglæpamaður og morðingi sem hafði notið þess að pynta og drepa dýr sem barn og unglingur.
Viðurkenndi tíu árum síðar að hafa þekkt Ann Marie
Þegar að Ann Marie hvarf var Bundy blaðburðadrengur í hverfinu og bar meðal annars út blöð í hús Burr fjölskyldunnar. Ted Bundy þekkti því Ann Marie og Ann Marie þekkti hann því hún kom oft út að taka á móti blaði dagsins og stundum áttu þau spjall saman.
Á þeim tíma sem Ann Marie hvarf vissi það hins vegar enginn og það liðu tíu ár þar til Bundy viðurkenndi að hafa þekkt litlu stúlkuna.
Eftir að Bundy var fyrst handtekinn árið 1975 voru lögregluyfirvöld snögg að átta sig á að hann hafði verið nágranni litlu Anna Marie, stúlkunnar sem hvarf eins og jörðin hefði gleypt hana.
Það er vitað að Bundy myrti um 30 stúlkur og ungar konur, allt niður í 12 ára gamlar. Spurður við yfirheyrslur á sínum tíma um hvort að sú tala væri nálægt sannleikanum svaraði Bundy því til að ef einu núlli væri bætt við væri lögregla komin mun nær hinni réttu tölu.
Fólk fór að velta fyrir sér hvort það gæti verið tilviljun að lítil stúlka, nágranni eins skelfilegasta fjöldamorðingja sögunnar, hyrfi sporlaust?
Margir, bæði meðal lögreglu, almennings og ekki síst fjölskyldu Ann Marie, eru þess fullviss um að Bundy hafi rænt, nauðgað og myrt Ann Marie og hugsanlega hafi hún verið hans fyrsta fórnarlamb.
Óljós játning?
Rithöfundurinn Rebecca Morris, sem skrifaði bók um Bundy, eftir að hafa tekið viðtöl við fjölda fólks sem þekkti morðingjann segir Bundy hafa játað morðið á Ann Marie fyrir prófessor í afbrotafræði sem tók viðtal við Bundy í fangelsi seint á áttunda áratugnum. Sá maður er hins vegar látinn.
Morris eyddi fjölda ára í að rannsaka Bundy, og ekki síst tengsl hans við hvarfið á Ann Marie. Bundy talaði oft í þriðju persónu um hvernig fjöldamorðingi hugsaði og hagaði sér, sem var hans leið til að játa glæpi sína án þess að án þess að bendla sjálfan sig beint við morðin.
Hún segir að Bundy hafi rætt um ránið og morðið á Ann Marie á þann hátt, það er að segja hvernig hann myndi álíta að morðinginn hefði borið sig að við verknaðinn.
Átakanlegt bréf móður
Árið 1986 skrifaði móðir Ann Marie bréf til Bundy og grátbað hann um að segja sér hvort hann hefði myrt dóttur hennar.
Bundy hafði þá verði dæmdur til dauða og móðir Ann Marie sagðist þurfa að vita sannleikann áður en Bundy færi með hann í gröfina.
Í bréfinu sagðist móðir Ann Marie vita að hann hafi verið sá er lá á gluggum á kvöldin og að því hefði komið að hann hefði ekki ráðið við sig lengur. Gægjurnar hefðu ekki fullnægt honum lengur og löngunin til að nauðga og myrða hefði tekið yfir, jafnvel þótt hann hefði aðeins verið táningur.
Ann Marie hefði verið hans fyrsta fórnarlamb.
Í bréfinu grátbað hún Bundy um að segja sér í það minnsta hvar líkið af dóttur hennar væri svo hún gæti kvatt hana. Bað hún guð að fyrirgefa honum syndir sínar, hann hefði engu að tapa, en gæti gert eitt góðverk að lokum.
Hún sagði lífi sínu í raun hafa lokið þessa nótt og óskaði þess að Bundy hefði fengið þá hjálp sem barn sem ef til vill hefði breytt vegferð hans í lífinu.
Neitaði fram í rauðan dauðann
Ted Bundy svaraði bréfinu en sagðist ekkert vita um hvarf eða morð á Ann Marie. Hann var tekinn af lífi í rafmagnsstól Flórída árið 1989 og neitaði sök til dauðadags.
Faðir Ann Marie lést árið 2003, og móðir hennar fimm árum síðar, án þess að vita hvað varð um barnið þeirra.
Árið 2011, 50 árum eftir hvarf Ann Marie, var gerð DNA rannsókn á þeim örfáu sönnunargögnum sem fundust við heimili Burr fjölskyldunnar en því miður voru sýnin of lítil og illa farin til að unnt væri að komast að neinni niðurstöðu.
Hvarfið, og sennilegast morðið, á Ann Marie Burr er því enn óleyst.