Ekstra Bladet segir að mennirnir hafi framvísað fölsuðum kórónupössum við innritun í flug Turkish Airlines til Tyrklands og hafi því verið teknir til skoðunar af tollvörðum. Mennirnir voru með fjórar ferðatöskur. Í þeim fundu tollverðir andvirði 4,6 milljóna danskra króna í dönskum, norskum og sænskum krónum auk evra og dollara. Í ákærunni kemur fram að mennirnir hafi vitað eða hafi haft grun um að peningarnir væru ávinningur brotastarfsemi.
Mennirnir neita báðir sök.
Hljóðskilaboð á arabísku voru leikin í dómsal í gær þar sem annar maðurinn heyrist spyrja hinn af hverju hann hafi bókað farmiða þeirra með lest og flugi saman. „Af hverju pantaðirðu ekki í sitt hvoru lagi, er það ekki öruggast?“ sagði hann.
Rannsókn lögreglunnar leiddi í ljós að mennirnir höfðu farið 15 ferðir frá Kaupmannahöfn til Istanbúl í Tyrklandi með ferðatöskur fullar af peningum. Lögreglan telur að þeir hafi samtalt flutt sem svarar til 40,7 milljóna danskra króna úr landi.