Eins árs gamall drengur lést þann 9. desember síðastliðinn í barnagæslu í bænum Dudley á Englandi. Lögreglurannsókn var sett í gang í kjölfar andlátsins og voru þrjár konur, 20, 23 og 50 ára gamlar, handteknar í síðasta mánuði vegna gruns um alvarlega vanrækslu sem leiddi til dauða drengsins.
Þessum þremur konum hefur nú verið sleppt úr haldi gegn tryggingu en rannsókn lögreglunnar heldur áfram. Í gær voru þrjár aðrar konur, 37, 51 og 53 ára gamlar, handteknar í tengslum við málið. Tvær þeirra voru handteknar vegna gruns um manndráp af hendi fyrirtækis en ein þeirra er grunuð um það sama og fyrri þrjár konurnar sem voru handteknar.
Í frétt The Sun um málið er haft eftir lögreglunni að andlát drengsins sé grunsamlegt. Búið er að loka barnagæslunni en ekki hefur verið greint frá því hvaða barnagæslu um sé að ræða. Krufningu á líki drengsins er lokið en þó á eftir að rannsaka það betur til að staðfesta hvað það var sem dró hann til dauða.