Hinn umdeildi Andrew Tate var í síðustu viku handtekinn af rúmensku lögreglunni en hann er grunaður um mansal, nauðgun og fyrir að hafa stofnað skipulögð glæpasamtök. Þá var bróðir hans, Tristan, einnig handtekinn en hann er grunaður um sömu brot.
Samkvæmt saksóknurum hið ytra eiga Tate bræðurnir að hafa fengið ungar konur til liðs við sig í gegnum samfélagsmiðla, í kjölfarið hafi þeir svo fengið þær til að ferðast með sér. Síðan eru þeir sagðir hafa verið að neyða þær í að gera kynferðislega hluti fyrir framan vefmyndavélar.
Andrew Tate er, sem fyrr segir, hefur verið afar umdeildur. Skoðanir hans á konum og minnihlutahópum hafa þótt afar skaðlegar en hann hefur dreift þeim til fylgjenda sinna sem eru taldir í milljónum. „Konur eru ekki með sjálfstæða hugsun. Þeim dettur ekki neitt í hug. Þær eru bara tómir vasar sem bíða eftir að verða forritaðar,“ er til dæmis á meðal ummæla sem komið hafa frá honum.
Sjá einnig: Hver er Andrew Tate? Sagður vera hættulegasti maðurinn á Internetinu
Daria Gușă, 19 ára gömul stelpa frá Rúmeníu, segir Andrew Tate hafa sett sig í samband við sig þegar hún var aðeins 16 ára gömul. Daria telur að hann hafi ætlað að koma henni í þær aðstæður sem hann er sagður hafa sett aðrar stelpur í.
Samkvæmt Mirror birti Daria, sem er dóttir Cozmin Gușă, fjölmiðlamanns og fyrrum rúmensks þingmanns, færslu á samfélagsmiðlum sínum þar sem hún opnar sig um málið.
Daria segir Tate hafa haft samband við sig á Instagram, hún furðaði sig á því að maður með svona marga fylgjendur væri að senda sér skilaboð.
„Ég var 16 ára gömul, ég var nýbúin að stofna aðgang á Instagram, en ég var ekki lengur í landinu [Rúmeníu], ég var í námi í Austurríki.“
Henni þótti grunsamlegt að maður sem hún kannaðist ekki við og var með nokkrar milljónir fylgjenda væri að senda sér skilaboð. Þá segir hún skilaboðin hafa verið klúrin og að það hafi verið „augljós tilgangur“ þeirra að „ná henni“ með þeim.
Síðar komst Daria að því að aðrar stelpur sem voru í sama skóla og hún í Rúmeníu höfðu fengið svipuð skilaboð frá bræðrunum. „Ég spurði fyrrum samnemendur mína hvort þær hefðu fengið svona skilaboð og þrjár þeirra staðfestu að svo var.“
Daria segist ekki hafa svarað skilaboðunum á sínum tíma en að ein vinkona hennar í Rúmeníu, sem þá var 15 ára gömul, hafi svarað öðrum bræðranna. Hún hafi svo verið í samræðum við hann í dágóðan tíma.