Það voru víst vísbendingar um að eitthvað óeðlilegt væri að eiga sér stað á heimili hins umdeilda Andrew Tate í Rúmeníu áður en hann var handtekinn og kærður fyrir nauðgun og mansal skömmu fyrir áramótin.
Samkvæmt nágrönnum Tate, sem ræddu við miðilinn The Times, höfu ungir menn mætt í hrönnum að eigninni og sögðu við viðstadda að þeir væru mættir til að mæta í svokallaðan „flagara háskólann“, eða Hustler University, sem Tate var sagður reka. Það er óljóst hvað átti sér stað í þessum kennslutímum en ein manneskja sem býr á svæðinu sagði að hópar hefðu verið að mæta þrisvar til fjórum sinnum í viku.
Heimili Tate var víst svo vinsæll viðkomustaður að honum var sérstaklega bætt inn á Google Maps til að hjálpa leigubílstjórum að finna húsið.
Íbúar á svæðinu í kring sögðu við The Times að þeir hefðu séð „konur þarna inni að vinna við upptökumyndavélar“ og vísuðu þar til klámfengins efnis sem konurnar voru að hlaða inn á netið að beiðni Tate.
„Það voru konur þarna allan sólarhringinn,“ sagði einn nágranninn.
Yfirvöld í Rúmeníu halda því fram að konur hafi verið plataðar til að framleiða klámfengið efni og þær svo mátt þola líkamlegt og andlegt ofbeldi.
Dóttir frægs viðskipta- og stjórnmálamanns í Rúmeníu, Daria Gusa, greindi frá því við fjölmiðla um helgina að Tate hafi reynt að lokka hana inn í klámnet sitt. Hann hafi sent henni skilaboð sem gáfu ýmislegt til kynna fyrir þremur árum síðan, en hún hafi ekki fallið fyrir trikkinu.
Eignar Tate í Rúmeníu var gætt af þungvopnuðum öryggisvörðum sem máttu bera vopn því að staðurinn hafði fengist skráður sem skotíþróttafélag. The Times meta það sem svo að Tate hafi þénað tugi milljóna Bandaríkjadala á ári með allskonar peningaplokki. Tate hafi yfirgefið Bretland fyrir um fimm árum síðan eftir að framkoma hans var gagnrýnd.
„40 prósent ástæðunnar fyrir því að flutti til Rúmeníu var því að nauðgunarlög eru ekki eins ströng hér,“ sagði hann eitt sinn. „Ég er enginn fjandans nauðgari en ég kann að meta hugmyndina að geta gert það sem mér sýnist.“
Hann var einnig bannaður frá Twitter síðasta sumar eftir að hann lýsti því yfir að konur bæru sjálfar ábyrgð á því að þeim væri nauðgað. Hann var svo leystur úr banninu nú í nóvember eftir að Elon Musk keypti Twitter.
Fyrir áramót var Andrew Tate handtekinn af rúmensku lögreglunni grunaður um mansal, nauðgun og fyrir að hafa stofnað skipulögð glæpasamtök. Bróðir hans var einnig handtekinn, grunaður um sömu brot.
Tate er fyrrum heimsmeistari í kickboxi, þátttakandi í Big Brother raunveruleikaþættinum. Viðhorf hans til kvenna, of feitra og þunglyndra hafa vakið mikla athygli og reiði.