Jenn Carson naut þess að vera með föður sínum, James Carson. Hann var alltaf til staðar, las fyrir Jenn, eldaði mat og fléttaði á henni hárið.
Þangað til allt breyttist.
Frá sérvisku til ofbeldis
James Carson var það sem mætti kalla nörd með ástríðu fyrir sagnfræði, heimspeki og trúarbrögðum. Hann kvæntist að loknu háskólanámi og þau hjón eignuðust Jenn. James hafði aftur á móti minni áhuga á vinnumarkaði og sá, Lynne, kona hans fyrir heimilinu á meðan James var heima með Jenn auk þess að selja marijúana.
En með tímanum fór hegðun James að breytast. Hann fór frá því að vera það sem mætti kalla sérvitur, í að beita Lynne hótunum og ofbeldi. Lynne var reyndar orðin langþreytt á heimspekilegum einræðum hans svo og algjöru viljaleysi til að hjálpa til að sjá fyrir heimilinu.
En þegar að hann ógnaði henni með byssu fékk Lynne endanlega nóg, fór fram á skilnað og flutti út með Jenn, sem þá var fimm ára.
Skyldi Jenn vera með móður sinni á virkum dögum en hjá föður sínum um helgar og fyrstu vikurnar gekk allt prýðilega.
Frelsarinn á sýrunni
Skilnaðurinn var reyndar vart frágenginn þegar að James kynntist Suzan Barnes og giftust þau innan örfárra daga. James var 29 ára og Suzan áratug eldri, fráskilin móðir tveggja unglingspilta.
James var heillaður af Suzan. Hún sagði hann ekki heita James lengur, hann héti nú Michael Bear og væri engill, sendur til hennar í æðri tilgangi.
James breytti nafni sínu samdægurs.
James/Michael hafði lengi fiktað við eiturlyf en Suzan var á allt öðrum stað, djúpt á kafi í alls kyns skynörvandi efnum sem hún sagði dýpka skilning sinn á dulspeki.
Hún hafði þróað með sér eigin trúarbrögð, furðulega blöndu af Islam, trú á yfirbrugði hvíta kynstofnsins og galdratrú, og kvaðst send til jarðar til að bjarga mannkyninu. Hafði hún fengið þau skilaboð frá æðri máttarvöldum.
James/Michael trúði hverju orði og leit á Suzan sem frelsara sinn.
Framhjáhald, eiturlyf og geðveiki
Áður en Susan Barnes varð „Suzan frelsaru“ hafði hún reyndar verið heimavinnandi húsmóðir í auðmannahverfi í borginni Scottsdale í Arizona. En smám saman leiddist henni að eyða dögunum í tennis og verslunarferðir og hóf að taka LSD, meskalín og önnur hugbreytandi efni, og það með sonum sínum og vinum þeirra.
Sýnirnar hófust og Susan taldi sig skyggna.
Hún hóf einnig að bjóða vinum sona sinna að stunda kynlíf með sér og segir sagan að Susan hafi sofið hjá um 150 unglingspiltum á þessum tíma.
Framhjáhald, eiturlyfjanotkun og geðraskanir Susan urðu til þess að maður hennar skildi við hana. Susan var þá 35 ára, breytti nafni sínu í Suzan og varð þess fullviss um að hún sendiboði guðs. Hún þyrfti aftur á móti lærisvein.
Og þá kynntist hún James Carson, manni sem aftur á móti var að leita tilgangi lífsins, guði reyndar.
Óbærilegar helgar
Eftir nokkurra mánaða dvöl í Evrópu, sem einkenndist af stanslausri vímuefnaneyslu, heldu þau heim og bjuggu til sitt einkahelvíti í miðju hippahverfis San Fransico. Líf þerra var litað af stanslausri eiturlyfjaneyslu sem hefur eflaust átt sinn þátt í ofsjónum þeirra, ofsóknaræði og fjölda geðraskana.
Helgarnar hjá Suzan og James/Michael voru Jenn óbærilegar.
Í grein sem Jenn skrifaði síðar í Huffington Post segir meðal annars. „Ég lá vakandi í svefnpokanum á gólfinu á næturnar, hálfsturluð af hungri, og vonaði að hvorugt þeirra tæki eftir mér.“
Ekki bara neitaði Suzan að gefa Jenn að borða heldur beitti hún stúlkuna bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Faðir hennar horfði bara á, hann mótmælti aldrei Suzan.
Faðir Jenn var horfinn og í hans stað kominn Michael Bear, maður sem varla yrti á dóttur sína.
Flóttinn
Það leið þó ekki á löngu þar til Lynn komst að ástandinu á fyrrverandi manni sínum og konu hans og stöðvaði helgarheimsóknir Jenn. Hún varð hreinlega skelfingu lostin þegar að sá hversu djúpt þau hjón voru sokkin og var þess handviss að að því kæmi að þau myndu skaða Jenn.
Lynn pakkaði því Jenn inn í bíl um miðja nótt og ók í burtu án þess að láta fyrrverandi mann sinn vita. Jenn man eftir léttinum, vitandi af því að hún þyrfti aldrei aftur að sofa á gólfinu í skítabæli föður síns og stjúpmóður.
Lynn var það hrædd að hún lokaði á allt samband við sameiginlega vini hennar og James og flutti á nokkurra mánaða fresti með Jenn.
Suzan og James/Michael náðu því aldrei að skaða Jenn. Þau sköðuðu aftur á móti fjölda annarra.
Kölluð til að drepa nornir
Á þessum tíma var fjöldi alls kyns gúrúa að boða kenningar sínar meðal ungmenna San Fransisco þótt að mesti blómatími hippatímabilsins væri liðin. Það var einmitt í hippahverfi borgarinnar sem Charles Manson hafði til að mynda náð að mynda sinn morðóða söfnuð þrettán árum áður.
Flestir þessara einstaklinga boðuðu einhvers konar blöndu af dulspeki, jóga og veganisma en kenningar Suzan gengu mun lengra.
Ein var sú að heimurinn væri fullur af nornum sem reyndu að ná stjórn yfir heila fólks og það væri í hennar verkahring að sjá til þess að þær yrðu drepnar.
Suzan og James/Michael tókst að fá nokkur ungmenni til að hlusta á kenningarnar sínar í eiturlyfjaþoku íbúðarinnar. Ein þessarar ungmenna var hin 23 ára Keryn Barnes (alls óskyld Suzan), sem þau hjón buðu að leigja hjá sér herbergi.
Sambúðin gekk vel í nokkrar vikur eða þar til Suzan tilkynnti James/Michael að Keryn væri í raun norn og hana bæri að drepa.
James/Michael barði því Keryn til dauða auk þess að margstinga hana. Hjónin lögðu þvínæst á flótta. Þegar að lögregla fann Keryn lék enginn vafi á hver bæri ábyrgð á morðinu.
„Pabbi meiddi fólk“
Á flóttanum myrtu þau að minnsta kosti þrjá menn. Einn var skógarvörður sem hafði boðið þeim gistingu, hjá öðrum störfuðu þau hjá í stuttan tíma við marijúnaræktun auk þess að myrða mann sem hafði boðið þeim far.
Glæpur þeirra allra var sá sami: Þeir höfðu á einhvern hátt móðgað Suzan og því bar James/Michael að drepa þá.
Þau hjón voru á flótta í nokkra mánuði áður en þau náðust.
Alveg frá því Lynne ók í burtu með Jenn hafði ekki verið minnst á föður hennar. En Jenn man vel daginn sem móðir hennar sótti hana í skólann og sagðist þurfa að tala við hana.
„Mamma sagði að pabbi hefði meitt fólk og þyrfti að fara í fangelsi svo að hann meiddi ekki fleiri,“ rifjar Jenn upp í greininni. „Ég spurði hvort einhver hefði dáið og hvort eitthvað af dána fólkinu ætti mömmu. Mamma kinkaði bara kolli og við héldumst í hendur og grétum.“
Jenn var þá níu ára gömul og við tók langur tími sársauka og svartnættis.
Tíu ára á barmi sjálfsvígs
Gríðarleg umfjöllun um réttarhöldin fór ekki framhjá Jenn þótt að móðir hennar reyndi sitt besta til að vernda hana frá hinu versta.
Suzan og James/Micheael fengu bæði dóm upp á 150 ár.
Jenn fylltist svo miklu þunglyndi að hún reyndi tvisvar að fyrirfara sér. Í fyrra skiptið með því að drekkja sér í baðkari og í seinna skiptið tók hún allar töflur sem hún fann í lyfjaskáp móður sinnar.
„Mér fannst ég vera einskis virði og að heimurinn væri betur settur án mín. Ég var ekki orðin tíu ára þegar ég var á barmi sjálfsvígs vegna morðóðs föður.“
Jenn var þó ákveðin í að ná bata, vann mikla sjálfsvinnu með ráðgjöfum, en segir það vera verkefni til lífstíðar að jafna sig á áfallinu.
Jenn er 48 ára í dag, með meistaragráðu í sálfræði og starfar hjá samtökum sem vinna gegn sjálfsvígum.
Hún er þess fullviss að sjálf hefði hún verið myrt, og þakkar móður sinni lífgjöfina. „Suzan hataði mig og meiddi mig sífellt verr í hvert skipti sem ég hitti hana. Hún var á leiðinni að drepa mig.“
Eru samfélaginu stórhættuleg
Jenn segir föður sinn og stjúpmóður stórhættulegt fólk sem aldrei megi sleppa úr fangelsi. Þau hafa aldrei sýnt neina iðrun og telja sig samviskufanga, fórnarlömb illra stjórnvalda sem vilja þagga í þeim.
Jenn sá föður sinn í fyrsta skipti í yfir 30 ár fyrir tveimur árum, þegar að hann og Suzan áttu möguleika á reynslulausn.
Hún vitnaði fyrir skilorðsnefndinni um reynslu sína og sagði það samfélaginu stórhættulegt að hleypa hjónunum út.
Báðum var synjað um reynslulausn.
Grunur leikur á að Suzan og James/Michael hafi í raun myrt tíu til fimmtán manns, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.