Samkvæmt því sem kemur fram á vef Sciencenews þá eru yngstu þekktu steingervingarnir af mammútum 10.700 ára gamlir. Þó er vitað að mammútar voru uppi síðar á Wrangel eyju, sem er undan ströndum Síberíu, og á Pribilof Islands í Beringshafi.
Rannsóknir á síðustu árum, þar sem notast hefur verið við DNA sem hefur fundist í jarðvegi, benda til að fyrri hugmyndir um útrýmingu dýrategunda séu ekki allar réttar. Þetta á til dæmis við um nashyrninga í Evrasíu og hesta í Alaska. Niðurstöður nýrra rannsókna benda til að þessar tegundir hafi ekki dáið út fyrr en mörg þúsund árum síðar en talið hefu verið.
Í grein sem steingervingafræðingarnir Joshua Miller og Carl Simpson, skrifuðu í vísindaritið Nature í lok nóvember benda þeir á að stór bein úr dýrum geti legið á yfirborðinu á ísköldu heimskautasvæðinu í mörg þúsund ár. Það taki þau langan tíma að brotna niður. DNA geti borist úr beinunum niður í jarðveginn og að því sé ekki hægt að útiloka að sum af yngstu DNA-sýnunum séu úr beinum komin, beinum sem lágu lengi á yfirborðinu.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær eða af hverju mammútar dóu út. Vísindamenn telja að ef það tekst að tímasetja nokkuð nákvæmlega hvenær þeir dóu út þá geti það varpað ljósi á ástæðurnar. Hvort það hafi verið loftslagsbreytingar, menn eða blanda af þessu tvennu sem gerði út af við þá.