Allt frá því drengurinn í kassanum fannst árið 1957 hefur morðið á barninu plagað lögreglu og íbúa borgarinnar Philadelphia.
Það hafa orðið margar furðulegar flækjur í málinu þau 65 ár sem leitin að nafni, og ekki síður morðingja, barnsins hefur staðið yfir.
En í fyrradag, þann 8. desember, gaf lögreglan út yfirlýsingu. Nafn drengsins í kassanum, eins og hann var alltaf kallaður, var loksins fundið.
Líkið sem fannst þrisvar
Lík drengsins fannst reyndar tvisvar, ef ekki þrisvar, í ársbyrjun 1957 í skóginum þar sem það lá. Fyrstur til að finna drenginn var ungur maður sem var að kanna gildrur sem hann hafði sett upp til að veiða bísamrottur.
Hann lét aftur á móti engan vita þar sem gildrurnar voru kolólöglegar. Annar ungur maður, sem var á ferðinni nokkrum dögum seinna, í von um að hitta stúlkur í nálægum skóla fyrir ,,vandræðastúlkur” gekk einnig fram á líkið. Hann mun hafa talið að um dúkku væri að ræða og snúið sé aftur að því að reyna að hitta stelpurnar.
Sá þriðji var einnig ungur maður, á akstri eftir vegi við skóginn. Hann sá kanínu á hlaupum og þar sem hann vissi af gildrum í skóginum stoppaði hann bílinn í von um að ná sér í feita og fína kanínu í matinn. Sá hafði heldur ekki samband við yfirvöld af sömu ástæðu og sá fyrsti, vildi hann ekki láta nappa sig fyrir að leita uppi dýr í gildrum.
Heimildum ber ekki saman um hvort piltarnir voru tveir eða þrír sem fundu líkið en þegar að einn þeirra heyrði að leit stæði yfir að þriggja ára stúlku, fór sá til lögreglu. Grunaði hann að kannski væri það týnda telpan sem hann hefði fundið á göngu sinni um skóginn.
Svo reyndist ekki vera en sagan af þeirri litlu telpu birtist í DV á morgun, sunnudag.
Fékk mjög á lögreglu
Kassinn reyndist vera frá verslunarkeðjunni JCPenny og vera undan vöggu. Hann var hálfopinn og í honum lík af dreng, fjögurra til sex ára gömlum, nýlega látnum. Var hann hvítur á hörund, ljóshærður og aðeins um 15 kíló.
Hann var nakinn og vafinn inn í teppi. Hann var augljóslega vannærður og með áverka sem bentu til að hann hefði orðið fyrir miklu ofbeldi fyrir látið. Talið var að hann hefði verið barinn til bana.
Fundurinn fékk mjög á lögreglumenn og allt kapp var lagt á að finna út hver drengurinn væri. Hhafði hár hans verið verið klippt af eða skorið ruddalega af með hnífi. Það voru enn hárklumpar á líkinu svo það hafði augljóslega verið gert rétt fyrir eða eftir morðið.
Það voru gerðar teikningar af drengnum, þúsundir auglýsinga voru settar upp, bæði í Philadelphiu og öðrum nálægum borgum og bæjum og jafnvel ljósmyndir af líkinu opinberaðar þegar að fyrrnefnd ráð dugðu ekki til.
Fjöldi ábendinga
Strax kom fram fjöldi kenninga um hver drengurinn væri. Ein var að um væri að ræða barn ungverskra flóttamanna sem hvarf tveimur árum áður, önnur var að um væri að ræða barn frá farandsirkus sem hafði átt leið um og svo framvegis.
Lögregla fylgdi hverri einustu ábendingu eftir en án árangurs.
Árið 1960 hafði starfsmaður dánardómstjóra samband við miðil. Sá hafði verið viðstaddur krufningu drengsins og gat ekki hætt að hugsa um málið. Miðillinn sagði að svarið væri að finna á fósturheimili í borginni. Svo vildi til að verið var að selja dánarbú eigenda heimilisins og fór starfsmaðurinn á söluna. Tók hann þar eftir kassa frá JCPenney svo og teppi sem líktist mjög teppinu sem barnið fannst vafið í.
Taldi hann að barnið væri sonur stjúpdóttur eigandans en hún hafði átt barn utan hjónabands, sem var töluvert hneyksli í þá daga. Lögregla taldi þetta bestu vísbendinguna hingað til en svo fór að hún leiddi ekkert. Drengurinn í kassanum tengdist ekki fósturheimilinu á neinn hátt og viðkomandi barn sprelllifandi.
Loksins von um lausn
Í 42 ár komu engar nýja vísbendingar fram en árið 2002 steig fram kona sem sagði móður sína hafa keypt barnið árið 1954. Móðir hennar hefði beitt drenginn bæði líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Lýsti hún meðal annars að barnið hefði kastað upp bökuðum baunum en móðir hennar hefði neytt drenginn til að borða æluna.
Það þótti sérlega áhugavert enda fundust bakaðar baunir í maga drengsins við krufningu. En það fundust engin sönnunargögn sem studdu sögu konunnar og á endanum taldi lögregla að móðir konunnar ætti engan hlut að máli. Hefði hún hvorki keypt drenginn, misþyrmt né myrt.
Barnið sem aldrei gleymdist
Það liðu tíu ár og í ársbyrjun nú 2022 var hafin ítarleg rannsókn á DNA sýni úr drengnum. Var það sett í alla mögulega gagnabanka og loksins komu niðurstöður sem mark var takandi á.
Það fundust ættingjar úr móðurætt og þegar að farið var að rannsaka gömul fæðingarvottorð, ásamt því að tala við ættingjana, fannst nafn bæði föður og móður. Í ljós kom að drengurinn hét Joseph Augustus Zarelli og var nýorðinn fjögurra ára þegar að lík hans fannst í skóginum.
Á blaðamannafundi nú í desember sagði fulltrúi lögreglu að öllum innan stéttarinnar væri létt, barnið hefði aldrei gleymst og hefði hver ný kynslóð lögreglumanna haldið áfram að kanna málið.
Það eru aðeins tveir dagar liðnir frá tilkynningu lögreglu, sem hefur ekki gefið upp mikið um stöðu málsins. Vitað er móðir Joseph litla átti þrjú önnur börn, sem öll eru á lífi.
Ekkert enn gefið upp
Lögregla neitar enn sem komið er að gefa upp nafn foreldra barnsins né annarra ættingja af tillitsemi við systkinin.
Lögregla neitar einnig, enn sem komið er, að gefa upp hver eða hverjir séu grunaðir um morðið. Það breytir því ekki að allt er morandi af kenningum á internetinu.
Talsmenn lögreglu hafa þó sagt að lögregla hafi sínar grunsemdir en rannsókn standi enn yfir og verði ekkert fleira gefið upp fyrr en henni sé lokið.
En eitt það fyrsta sem gert var í vikunni var að fjarlægja grafstein drengsins sem á var ritað ,,Óþekkt barn” og hvílir nú Joseph Augustus Zarelli loksins í gröf sinni undir eigin nafni.