Það er einmitt það sem gerðist þegar stjörnufræðingar uppgötvuðu svarthol í Vetrarbrautinni. Það er nær jörðinni en nokkuð annað svarthol sem hefur fundist. Það uppgötvaðist þegar stjörnufræðingar veittu því athygli að braut stjörnu nokkurrar var undarleg.
Universe Today skýrir frá þessu. Fram kemur að svartholið sé aðeins 1.500 ljósár frá jörðinni. Til samanburðar má nefna að svartholið, sem er í miðju Vetrarbrautarinnar og var myndað 2019, er í um 27.000 ljósára fjarlægð.
Það var alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga sem gerði þessa uppgötvun en hann notaðist við gögn frá geimsjónaukanum Gaia, sem er í eigu Evrópsku geimferðastofnunarinnar, sem hefur síðustu tíu árin kortlagt Vetrarbrautina í þrívídd.
Í gagnagrunni Gaia fundu stjörnufræðingarnir 168.065 stjörnur, sem við fyrstu sýn virtust vera annar tveggja hluta sem voru á braut um hvorn annan. En ein stjarna var áhugaverðari en aðrar. Það er Gaia DR3 4373465352615301632, sem er skiljanlega stytt í Gaia BH1 af stjörnufræðingunum, sem virtist vera á braut um eitthvað.
Út frá því hvernig braut stjörnunnar er og ekki síst þess hversu lengi hún er að ljúka einni hringferð gátu stjörnufræðingarnir ályktað að ósýnilegi félagi hennar væri svarthol með um tífaldan massa sólarinnar okkar.