Þetta kom fram á fréttamannafundi lögreglunnar í gærkvöldi. David Brown, lögreglustjóri, sagði að lögreglumenn hefðu séð til ferða bíls sem hafði verið stolið. Þeir gáfu ökumanni merki um að stöðva aksturinn og gerði hann það. Um leið og bíllinn stöðvaðist steig pilturinn út farþegameginn og hljóp á brott.
Lögreglumenn eltu hann en náðu honum ekki. Brown sagði að þeir hefðu skotið á piltinn þegar hann snéri sér við. En það passar ekki við það sem fjölmiðlar í borginni hafa sagt en þeir hafa sagt að pilturinn hafi verið skotinn í bakið. Brown vildi ekki tjá sig um það en sagði að hann hafi orðið fyrir einu skoti.
Hann vildi frekar lítið tjá sig um málið en sagði að lögreglumennirnir fjórir, sem komu að málinu, hafi allir verið leystir frá störfum tímabundið á meðan málið er rannsakað af sérstakri eftirlitsnefnd með störfum lögreglunnar en hún heitir Copa.
Í tilkynningu frá Copa segir að rannsakað verði hvort vinnubrögð lögreglumannanna hafi verið í samræmi við stefnu lögreglunnar og þá þjálfun sem lögreglumenn hljóta. Kveikt var á búkmyndavélum lögreglumannanna og Copa hefur einnig undir höndum upptöku frá þriðja aðila sem var nærstaddur. Copa segir einnig að ekkert vopn hafi fundist á vettvangi.