Allt frá því að heimsfaraldurinn braust út í upphafi árs 2020 hafa norðurkóresk stjórnvöld haldið því fram að engin smit hafi greinst þar í landi. En nú er veiran komin til þessa harðlokaða einræðisríkis og ríkisfjölmiðlar, það eru auðvitað engir frjálsir fjölmiðlar í landinu, segja stöðuna „alvarlega“.
Í kjölfar játningar Kim Jong-un á að veiran væri komin til landsins fóru fjölmiðlar að flytja fréttir af stöðu mála. Þar er almennt talað um „hitasjúkdóm“ af óþekktum uppruna sem hafi breiðst út síðan í lok apríl. Eru tæplega 200.000 manns sagðir hafa fengið meðferð við honum. Að minnsta kosti 65 eru sagðir hafa látist en aðeins hefur verið staðfest að eitt af þessum dauðsföllum sé af völdum COVID-19.
Samkvæmt nýjustu tölum frá norðurkóreskum yfirvöldum þá hafa um 2,2 milljónir landsmanna veikst. Einnig segja þau að „góður árangur“ hafi náðst í baráttunni við veiruna. Um 26 milljónir búa í landinu.
Erlendir sérfræðingar óttast að yfirvöld skýri ekki rétt frá tölum varðandi fjölda látinna til að fegra eigin ímynd og láta líta út fyrir að þeim hafi tekist vel upp í baráttunni við faraldurinn. Óttast sumir að tugir þúsunda geti látist af völdum veirunnar.