fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Ungi lögfræðingurinn kynntist ungri konu á Facebook – Þar með voru örlög hans ráðin

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 14. maí 2022 07:00

Shayna og Ryan. Mynd:Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framtíðin var björt hjá Ryan Carter Poston, 28 ára, lögfræðingi í Kentucky í Bandaríkjunum þegar hann kynntist Shayna Michelle Hubers, 19 ára, í gegnum Facebook í mars 2011. Hann hafði enga hugmynd um að þessi kynni myndu ráða örlögum hans.

Prófílmyndin hennar var tekin í Daytona Beach og sýndi brosandi stúlku í bikiníi. Ryan herti upp hugann og sendi henni vinabeiðni. Eftir að þau höfðu spjallað saman í smá tíma ákváðu þau að hittast.

Þau hittust margoft á skömmum tíma og deildu myndum af hvort öðru og því sem þau gerðu með vinum sínum og kunningjum á samfélagsmiðlum.

Vinir Ryan segja að hann hafi eiginlega ekki verið að leita að alvarlegu sambandi. Hann hafi viljað hleypa smá fjöri í líf sitt og ekki viljað binda sig. Hann hafi viljað jafna sig á sambandsslitunum við fyrrum unnustu sína, Lauren Worley. Hún sleit sambandinu við hann skömmu áður en hann kynntist Shayna.

Stormasamt samband

Eftir nokkurra mánaða stormasamt samband þar sem dramatík, öfundsýki og deilur voru nær daglegt brauð missti Ryan smám saman áhuga á Shayna. Hann reyndi að sögn að slíta sambandinu nokkrum sinnum en þau komust ekki að samkomulagi um að sambandinu væri lokið.

„Hann gat þetta bara ekki. Hann var alltof góður og vildi ekki særa hana,“ sagði Tom Awadalla, náinn vinur Ryan, þegar réttað var yfir Shayna.

Málið fékk mikla athygli í bandarískum fjölmiðlum og var meðal annars fjallað um það í „48 Hours“ hjá CBS News. Þar skýrði annar vinur Ryan, Matt Herren, frá þeim hörmulega missi sem andlát Ryan var: „Ryan var svona manneskja sem þú vilt hafa í lífi þínu. Hann var ekki bara mjög góður vinur, hann var einnig ástkær sonur og góður bróðir.“

„Klikkaðasta manneskjan sem til er“

Fjöldi vitna skýrði frá því hvernig Ryan reyndi að losna við Shayna en að hún hafi orðið sífellt ákafari í tilraunum sínum í að halda í hann. „Ég held að hún hafi sett sér það markmið að það væri hún sem hann eyddi lífinu með. Þegar hún áttaði sig á að það myndi ekki ganga eftir, þá varð það stórt vandamál,“ sagði Allie Wagner, vinkona Ryan, í „48 Hours“.

Í þættinum las hún upp skilaboð sem Ryan sendi henni í gegnum Facebook þegar þau ræddu hversu heltekin Shayan var af honum: „Hún er bókstaflega talað klikkaðasta, fjandans manneskjan sem ég hef nokkru sinni hitt. Hún hræðir mig næstum.“

Hugsaði um morð

Shayna reyndi að sannfæra vini sína um að Ryan væri stjórnsamur og ráðríkur og að ást hennar á honum væri við það að fjara út. „Hann segist bara vera með mér af því að honum líður svo illa þegar ég græt,“ skrifaði hún til vinar síns og bætti við: „Ást mín hefur breyst í hatur. Þegar við förum á skotsvæðið í kvöld langar mig til að snúa mér við og skjóta hann og drepa og láta eins og það hafi verið óhapp.“

Shayna. Mynd:Kentucky State Prison

 

 

 

 

 

 

 

Michelle Snodgrass, saksóknari, sagði fyrir dómi að lögreglan hefði fundið fjölda textaskilaboða þegar farið var yfir síma Ryan eftir að hann var myrtur. Flest skilaboðin voru frá Shayna. Hún hafði svarað hverjum skilaboðum hans allt að 50 sinnum. „Hún réði ekki við sig,“ sagði Snodgrass í „48 Hours“.

Var heltekin

Lauren, fyrrum unnusta Ryan, sagði í samtali við 20/20 að þau hafi alltaf verið sannfærð um að þau myndu taka saman á nýjan leik síðar á lífsleiðinni.

„Hún (Shayna) var vön að ganga um og spyrja fólk hvort það þekkti mig og hvort því fyndist hún fallegri en ég. Það var eins og hún væri heltekin af þessu auk þess að vera heltekin af Ryan,“ sagði hún í samtali við 20/20.

Átta mánuðum áður en hann var drepinn sendi Ryan skilaboð til Shayna og sagði að hún mætti gjarnan segja fólki að það væri hún sem hefði slitið sambandinu. Hún svaraði með því að segja að „hún elskaði hann meira en hann ætti skilið“.

Um mánuði síðar, í mars 2012, grátbað Ryan Shayna um að láta hann í friði. „Hættu að senda mér skilaboð“ skrifaði hann eftir að hún hafði látið textaskilaboðum rigna yfir hann daglega um hríð.

Shayna og Ryan. Mynd:Facebook

 

 

 

 

 

 

 

Fyrir dómi kom fram að taktík hennar hafi verið að senda Ryan fjölda skilaboða svo hann myndi gefast upp og láta undan henni. Hún átti til að senda honum fimmtíu til hundrað textaskilaboð á dag, þar til hann féllst á að hitta hana.

Þau héldu eyðileggjandi sundur/saman sambandi sínu áfram um sumarið en því lauk í ágúst. Þá hafði Ryan fengið nóg og sendi Shayna skilaboð: „Ég slekk á símanum og byrgi dyrnar.“

Bill Birkenhauer, lögreglumaður, sagði að svar Shayna við þessu hafi verið að senda Ryan að minnsta kosti eitt hundrað textaskilaboð næstu níu klukkustundir. „Hún var heltekin af Ryan Poston,“ sagði Birkenhauer í samtali við „48 Hours“.

Reyndi að halda áfram að lifa lífinu

Samtímis og sundur/saman samband þeirra stóð yfir reyndi Ryan að halda áfram að lifa lífinu. Eftir að hafa spjallað lengi við Audrey Bolte, Ungfrú Ohio, á Facebook og í textaskilaboðum ákváðu þau að hittast.

Þau ákváðu að hittast föstudaginn 12. október 2012. Audrey mætti á umsömdum tíma en Ryan skilaði sér ekki.

Kvöldið áður hafði hann farið heim til foreldra Shayna með henni. Síðan fóru þau heim til hans. Móðir Shayna sagði að þau hafi ákveðið að eyða nóttinni saman heima hjá honum. „Ég veit ekki hvort þetta var hluti af tilraun hans til að enda þetta á góðum nótum,“ sagði móðir Shayna fyrir dómi.

Shayna hafði skotið Ryan sex skotum heima hjá honum og orðið honum að bana. Einu skotinu skaut hún í andlit hans af stuttu færi.

Frá morðvettvanginum. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

Hún hringdi sjálf í neyðarlínuna og sagðist hafa skotið unnusta sinn til bana. „Ég drap unnusta minn í sjálfsvörn. Hann lamdi mig og reyndi að bera mig út úr húsinu. Ég reyndi að komast inn til að sækja hlutina mína. Hann var rétt fyrir framan mig og teygði sig eftir skammbyssunni. Ég tók hana af honum og skaut,“ sagði hún við lögregluna.

Játaði allt

Þegar hún var handtekin var henni kynntur réttur hennar til að fá verjanda og óskaði hún eftir því. Þetta kemur fram á myndbandsupptöku frá handtökunni. Á upptökunni heyrist hún síðan tala áfram við lögregluna, vel vitandi að það sem hún sagði gæti verið notað gegn henni fyrir dómi.

Segja má að um einræðu hafi verið að ræða. Hún sagði meðal annars: „Er hægt að fara í sturtu í fangelsi? Eða verður maður bara mjög skítugur þar?

„Hann hafði áður beint byssunni að mér í gríni. Núna skaut ég hann í sjálfsvörn af því að hann hafði áður slegið mig í höfuðið og ég hefði getað dáið.“

Shayna í yfirheyrsluherberginu. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

 

Hún sagði lögreglumönnunum síðan að hún hefði skotið Ryan mörgum sinnum: „Hann kipptist til og ég vildi ekki að hann fyndi til, svo ég skaut hafa oft.“

Hún hafði einnig áhyggjur af framtíð sinni: „Ég veit ekki hvort einhver vill kvænast mér ef þeir vita að ég drap kærasta minn í sjálfsvörn,“ sagði hún við lögreglumann.

Upptaka úr yfirheyrsluherbergi sýndi að hún dansaði og söng „Amazing Grace“. Einnig sagði hún hátt: „Ég gerði það. Já! Ég gerði það, ég trúi ekki að ég hafi gert það. Ég er svo góður leikari.“

Dómurinn

Dómur féll í málinu 2015. Shayna var dæmd í 40 ára fangelsi. En síðan kom í ljós að einn kviðdómendanna hafði hlotið refsidóm og ekki skýrt réttinum frá því. Af þeim sökum var dómurinn ógildur og rétta varð á nýjan leik yfir Shayna.

Nýr dómur var kveðinn upp í janúar 2018. Var Shayna þá dæmd í ævilangt fangelsi.

Hún afplánar nú refsingu sína í kvennafangelsi í Kentucky. Hún getur sótt um reynslulausn 2032.

Byggt á umfjöllun 48 HoursCBS News, 20/20, EOnline og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Tik-Tok-maðurinn dæmdur

Tik-Tok-maðurinn dæmdur
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Benjamin Netanyahu í vitnastúkunni í eigin spillingarmáli – „Ég hef beðið þessarar stundar í átta ár“

Benjamin Netanyahu í vitnastúkunni í eigin spillingarmáli – „Ég hef beðið þessarar stundar í átta ár“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar
Pressan
Fyrir 5 dögum

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi