Í heimildarmyndinni, sem er í fjórum hlutum, verður reynt að svara því hvort Allen hafi misnotað ættleidda dóttur sína, Dylan Farrow, þegar hún var sjö ára. People og Deadline skýra frá þessu. Heimildarmyndin hefur fengið titilinn „Allen v. Farrow“ og vísar þar til deilna Woody Allen við fyrrum sambýliskonu sína, Mia Farrow.
Í heimildarmyndinni er reynt að komast að sögunni að baki ásakananna um að Allen hafi beitt Dylan Farrow kynferðislegu ofbeldi þegar hann bjó með Mia Farrow. Einnig verður reynt að varpa ljósi á skyndileg endalok sambands Allen og Farrow þegar hann hóf ástarsamband við aðra ættleidda dóttur Farrow, Soon-Yi Previn, þegar hún var 21 árs. „Hver gæti hafa trúað þessu um Woody Allen,“ segir Mia Farrow í stiklunni fyrir myndina.
Allen yfirgaf Farrow 1992 og hóf sambúð með Soon-Yi Previn. Síðan þá hafa Farrow og Allen deilt harkalega. Það var eftir að hann sleit sambandinu við Farrow að hún setti í fyrsta sinn fram ásakanir um að hann hefði beitt ættleidda dóttur þeirra, Dylan, kynferðislegu ofbeldi þegar hún var sjö ára.
„Það er alveg sama hvað fólk heldur að það viti, þetta er bara toppurinn á ísjakanum,“ segir Dylan Farrow í stiklu myndarinnar.
Auk Mia og Dylan Farrow kemur Ronan Farrow, sonur Mia Farrow og Woody Allen, fram í myndinni. Einnig verða sýndar áður óbirtar upptökur af heimili Farrow og Allen á meðan þau bjuggu saman. Woody Allen kemur ekki fram í myndinni og það gerir Soon-Yi Previn heldur ekki. Hún og Allen eru gift og eiga tvö börn saman. Hún er fimmtug og hann 85 ára.