Þegar kosið er hér á landi fá kjósendur kjörseðil í hendurnar sem þeir fara með inn í kjörklefa þar sem þeir merkja við það framboð sem þeim hugnast best. Síðan setja þeir kjörseðilinn í kjörkassa. Enginn á að geta séð hvað þeir hafa merkt við. Í Svíþjóð er þetta með öðrum hætti. Þar er hver flokkur með sinn kjörseðill og er hann greinilega merktur með merki flokksins efst. Kjósendur velja síðan kjörseðil á borðinu hjá kjörstjórn og fara með hann inn í kjörklefann. En það að seðlarnir liggja á borði fyrir framan kjörklefana gerir að verkum að aðrir geta hugsanlega séð hvaða seðil kjósendur taka með sér inn í klefana.
Þessu eiga eftirlitsmenn ÖSE að fylgjast með en margir hafa lýst yfir áhyggum af þessum fyrirkomulagi og telja það ekki tryggja nægilega vel að kosningar séu leynilegar.
Fulltrúi sænsku kjörstjórnarinnar, Hans-Ivar Swärd, sagði í samtali við Danska ríkisútvarpið að kjörstjórnin fagni eftirliti ÖSE. Hann benti á að núverandi kosningakerfi sé hugsað til að tryggja leynd. Kjósendur geti tekið kjörseðla frá öllum flokkum með inn í kjörklefann ef þeir vilja leyna hvern þeir kjósa. Inni í kjörklefanum geti þeir sett þann kjörseðil, sem þeir ætla að skila í kjörkassann, í umslag og hent hinum í ruslið.
Annar möguleiki sem er í boði er að taka auðan kjörseðil með inn í kjörklefann og skrifa á hann þar inni. Gagnrýnendur hafa bent á að margir viti ekki af þessum möguleika.
Núverandi ríkisstjórn lagði nýlega fram frumvarp um breytingar á kosningalögum þannig að framvegis eigi kjósendur að fara inn í lokað rými og taka kjörseðil. Þannig á að tryggja að aðrir geti ekki séð hvaða seðil þeir taka. Þetta er gert vegna athugasemda frá framkvæmdastjórn ESB frá 2015 um sænsku kosningaaðferðina.