Mikill fjöldi flóttamanna og innflytjenda kom til Svíþjóðar 2014 og 2015 þegar flóttamannastraumurinn til Evrópu var í hámarki. Þá varð ákveðin viðhorfsbreyting og sífellt fleiri Svíar fóru að krefjast hertrar stefnu í málaflokknum. Á endanum lokuðu Svíar landamærum sínum þar sem þeir töldu sig ekki geta tekið við fleiri flóttamönnum að sinni. Nú er svo komið að það eru ekki bara Svíþjóðardemókratarnir sem vilja herða reglurnar, nær allir flokkar vilja það núna. Það þarf að fara langt til vinstri til að finna flokka sem vilja rýmri reglur en nú eru í gildi.
Þegar flóttamannastraumurinn var í hámarki 2014 og 2015 sóttu rúmlega 244.000 manns um hæli í Svíþjóð. 138.000 fengu hæli.
Þetta hefur eðlilega haft áhrif á íbúasamsetningu landsins en á síðasta ári voru 24 prósent íbúanna af erlendum ættum en hlutfallið var 17 prósent 2007. Í Stokkhólms léni er hlutfallið 32 prósent. Á 13 árum hefur íbúum landsins fjölgað um eina milljón en um 80 prósent fjölgunarinnar tengist innflytjendum.
Í kosningabaráttunni hefur umræða um lög og reglu iðulega verið tengd við útlendingaumræðuna og hafa Svíþjóðardemókratarnir verið iðnir við að tengja þetta saman. Mikið hefur verið rætt um afbrot útlendinga og hafa gróf ofbeldisbrot á borð við nauðganir verið töluvert til umræðu auk morða í stóru borgunum. Það hefur gert umræðuna erfiða að engar opinberar tölur eru til um afbrot útlendinga síðan 2005 þar sem Svíar hafa ekki talið það samræmast pólitískri rétthugsun að taka slíkar tölur saman. Nú hefur orðið breyting á og sænska hagstofan mun fljótlega fara að skrá afbrot útlendinga sérstaklega. Þetta gerðist í kjölfar þess að nokkrir fjölmiðlar hafa farið í saumana á uppkveðnum dómum og birt samantekt á hversu margir útlendingar komu við sögu í dómunum.