Lögreglunni barst tilkynning um að úlfur hefði verið skotinn og drepinn á akri nærri Ulfborg. Ekki nóg með það heldur náðist drápið á mynd og má sjá upptöku af því hér fyrir neðan. Sá sem skaut úlfinn sat í bíl og skaut úr honum og ók síðan á brott.
Lögreglan handtók mannin síðar og yfirheyrði og nú hefur hann verið ákærður. Fer saksóknari fram á að maðurinn verði dæmdur í fangelsi fyrir drápið. Auk þess að vera ákærður fyrir drápið á úlfinum er maðurinn ákærður fyrir að hafa skotið úr ökutæki en það er óheimilt.
Skiptar skoðanir hafa verið í Danmörku um innreið úlfa í danska náttúru en þeir „námu“ land á nýjan leik fyrir nokkrum misserum eftir að hafa verið útrýmt snemma á nítjándu öld. Sumir fagna þeim og segja þá hluta af eðlilegri náttúru landsins en aðrir óttast þá mjög og telja að fólki stafi hætta af þeim. Úlfum hefur fjölgað í Austur-Evrópu á undanförnum árum og hafa margir þeirra leitað í vestur til Þýskalands og síðan norður eftir Þýskalandi og þaðan til Danmerkur. Talið er að nú séu á bilinu 20 til 30 úlfar í Danmörku.