Drengurinn var nefndur „Símaklefa barnið“ og „Litlu bláu augun“ af fjölmiðlum en hann var um hríð eitt helsta umfjöllunarefni þeirra. Þrátt fyrir rannsókn og mikla fjölmiðlaumfjöllun tókst lögreglunni ekki að komast að hvaðan drengurinn var, hver móðir hans var eða af hverju hún hafði skilið hann eftir.
En nú hefur málið loksins verið leyst, 64 árum síðar.
Hjónin Stanley og Vivian Dennis ættleiddu litla drenginn og hann var skírður Steve. Hann ólst upp hjá nýju fjölskyldunni sinni í Arizona. Hann kvæntist síðar og eignaðist tvær dætur. Hann vissi alla tíð að hann hafði verið ættleiddur en sýndi aldrei neinn áhuga á að finna líffræðilega foreldra sína. En það breyttist þegar dætur hans komust á unglingsaldur og fóru að þrýsta á hann að finna meira út um fjölskyldu sína.
Í samtali við Lancaster Eagle Gazette sagði Steve að dæturnar hafi alltaf verið mjög forvitnar um málið og hafi sífellt verið að spyrja hann hvaðan hann væri og hverjir væru forfeður hans. Hann ákvað því á endanum að nýta sér þjónustu Ancestry.com og láta rannsaka DNA úr sér í þeirri von að blóðskyldir ættingjar hans væru einnig skráðir á vefsíðunni.
Þremur mánuðum síðar fékk hann niðurstöðurnar í hendurnar og komst í samband við tvímenning sinn sem vissi hver móðir hans var. Í kjölfarið fékk hann að vita að hann ætti hálfsystur. Hann setti sig í samband við hana og hún gat sagt honum að móðir hans væri á lífi og byggi í Baltimore. Hún var aðeins 18 ára þegar hún eignaðist Steve. Faðir hans sagði henni að hann myndi ekki kvænast henni nema hún losaði sig við barnið þeirra. Hún féllst á það og skildi hann því eftir í símaklefanum þessa janúarnótt. En faðirinn stóð ekki við orð sín og lét sig hverfa.
Móðir hans giftist síðar öðrum manni og eignaðist tvær dætur með honum.
Steve fer fljótlega til Baltimore til að heimsækja blóðmóður sína í fyrsta sinn. Hann sagði að það væri áhugavert að hafa komist til botns í málinu en það skipti ekki sköpum í lífi hans.
„Raunverulegir foreldrar mínir eru að sjálfsögðu þau sem ættleiddu mig. Það væri nánast ómögulegt fyrir mig að hugsa á annan hátt.“