Hvorki foreldrar þeirra systkina né þau eru með vefjagerðir sem passa við vefi Fletcher. Alþjóðleg leit að gjafa bar ekki árangur og því ákváðu foreldrar þeirra, Oliva og Andrew Densly, að búa til sinn eigin gjafa. Eftir langan undirbúning, þar sem mörg fóstur voru rannsökuð, og frjósemisaðgerð, sem kostaði sem svarar til rúmlega 10 milljóna íslenskra króna, var Lilliahna sköpuð því vefur hennar passar fullkomnlega við vef Fletcher.
Eftir að hjónin ákváðu að skýra opinberlega frá því að þau hefðu búið til barn til að hægt væri að nota beinmerg úr því til að bjarga lífi Fletcher hefur gagnrýni rignt yfir þau. Þau komu nýlega fram í áströlsku útgáfunni af 60 Mínútum til að verja ákvörðun sína. Þegar Oliva var spurð hvort hún óttist að Lilliahna muni dag einn fyllast óhug yfir að hafa verið búin til til að bjarga lífi bróður síns sagði hún:
„Mér finnst að við getum með góðri samvisku sagt við þetta barn „Já, við eignuðumst þig til að taka hluta af beinmerg þínum en það er jákvætt því við vissum að þú værir í fínu lagi.“
Hjónin hafa ekki aðeins verið gagnrýnd fyrir að hafa búið til barn til eftir pöntun heldur einnig fyrir að hafa haldið áfram að eignast börn vitandi að Oliva er með Wiskott-Aldrich heilkennið. Það eru um helmingslíkur á að börn konu, sem er með heilkennið, fái það.
Sonur þeirra, Cooper, var einnig með heilkennið en bróðir hans, Jackson, var með sömu beinmergsgerð og hann og því var hægt að lækna hann. Þegar hjónin tóku ákvörðun um að eignast fimmta barn sitt voru þau því í engum vafa um að líkurnar á að það myndi fæðast með heilkennið væru miklar. Það reyndist rétt því Fletcher greindist með það fljótlega eftir fæðingu.